Lífið

Boðið að sýna í New York

Vilborg, Eva Rún og Eva Björk hlakka mikið til að kynna íslenska sviðslist vestanhafs. fréttablaðið/stefán
Vilborg, Eva Rún og Eva Björk hlakka mikið til að kynna íslenska sviðslist vestanhafs. fréttablaðið/stefán
„Við erum ótrúlega ánægðar með þetta,“ segir Eva Rún Snorradóttir, einn þriggja meðlima Framandverkaflokksins Kviss búmm bang. Evu ásamt Vilborgu Ólafsdóttur og Evu Björk Kaaber hefur verið boðið að sýna verk sitt, Safari, á listakaupstefnunni APAP Global Performing Arts, í New York í janúar. Sýningin er sú stærsta sinnar tegundar.

Eva segir verkið munu eiga vel við á kaupstefnunni. „Þetta er ádeiluverk á það þegar list verður söluvara. Við kennum fólki að ná 100 prósent árangri á listahátíðum og hvernig það á að umgangast mikilvæga aðila - þarna úti verða í rauninni eingöngu mikilvægir aðilar þannig að þetta verður svona „extreme“ útgáfa af verkinu.“

Kviss búmm bang verður einn þriggja fulltrúa íslenskrar sviðslistar á stefnunni, sem ætlað er að kynna það áhugaverðasta í sviðslistum á alþjóðavettvangi. „Þetta er glæsileg kynning fyrir okkur. Allir sem sjá verkið eru festival-haldarar í Norður-Ameríku og það væri gaman ef boð á góðar hátíðir fylgdu í kjölfarið,“ segir Eva, en þær stöllur hafa þegar ferðast víða með verkið, til Frakklands, Finnlands og Litháen.

Listahópurinn vinnur nú að nýju verki sem verður frumsýnt í febrúar. „Verkið heitir Hótel Keflavík. Það kemst takmarkaður fjöldi gesta að á sýninguna því þetta er sólarhrings þátttökuverk. Sýningargestir gista á Hótel Keflavík og fylgja handriti frá okkur,“ segir Eva og bendir þeim sem vilja forvitnast frekar um verkið að hafa samband á kvissbummbang@gmail.com.-bb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.