Lífið

Rappar um fátækt sína og fangelsisvist á nýrri plötu

Óskar Axel Óskarsson rappar um unglingsárin á fyrstu plötu sinni, Maður í mótun. fréttablaðið/anton
Óskar Axel Óskarsson rappar um unglingsárin á fyrstu plötu sinni, Maður í mótun. fréttablaðið/anton
„Þetta eru mín unglingsár í hnotskurn,“ segir rapparinn Óskar Axel Óskarsson, sem hefur gefið út sína fyrstu plötu. Hún nefnist Maður í mótun og hefur að geyma tíu rapplög undir R&B-áhrifum, sungin á íslensku. Platan var tekin upp fyrir tveimur árum, skömmu eftir bankahrunið, þegar mikil reiði og óvissa var í þjóðfélaginu. „Mig langaði að koma tilfinningum mínum á framfæri.“

Í lokalaginu, Erfiðir tímar, syngur Óskar Axel um hvernig það er að vera fátækur og eiga foreldra sem eru á bótum. „Þegar hrunið skall á var ég búinn að ganga í gegnum ýmsa hluti. Mamma og pabbi voru búin að eyðileggja kennitölurnar sínar á einhverjum tímapunkti og allt var rosalega erfitt og í miklu klúðri. Við höfðum misst húsið okkar í bruna þegar hrunið gerist og þau voru nýfarin að standa almennilega í lappirnar,“ segir hinn tvítugi rappari. „Mér finnst eins og fólk í kringum mig sé að upplifa svipaða hluti og ég gerði, að missa húsið sitt og foreldrarnir höndla lífið ekki alltaf. Það er alltaf eitthvað vesen að koma upp en svona er bara lífið. Það kemur alltaf annar dagur.“

Í titillaginu Allt sem ég er, sem hann syngur með Ingó Veðurguði, biður hann pabba sinn fyrirgefningar á að hafa þurft að sækja sig í fangelsi. „Áður en ég var búinn að ná átján ára aldri var pabbi alveg að gefast upp á mér,“ segir Óskar Axel, sem hefur snúið blaðinu við og hyggur á nám í hljóðtækni. Núna er hann í Borgarholtsskóla.

Rapparinn steig fyrst fram á sjónarsviðið þegar hann lenti í öðru sæti í Músíktilraunum árið 2008 á eftir Agent Fresco. Þar fékk hann viðurkenningu fyrir textagerð, en með honum í keppninni var Karen Pálsdóttir sem syngur einmitt á nýju plötunni, rétt eins og popparinn Júlí Heiðar. „Eftir það fór ég á fullt. Ég vissi alltaf að þetta væri eitthvað sem mig langaði að gera,“ segir hinn efnilegi Óskar Axel, sem hefur í hyggju að setja upp tónlistarsýningu byggða á plötunni. Útgáfa Maður í mótun dróst einmitt á langinn vegna þess að sýningin átti að verða að veruleika um leið og platan kæmi út. Tveir kennarar höfðu hjálpað honum að semja handrit í kringum lögin og sýningin átti að vera í Hörpunni um jólin en erfitt reyndist að fá styrki í verkefnið. „Ég ætla 99% að gera þetta einhvern tímann þegar rétti tíminn finnst. Ég skora á menntamálaráðherra að kynna sér þetta verkefni betur.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.