Lífið

Nýtt lag frá Páli Óskari á fljúgandi siglingu

Í tilefni af degi rauða nefsins 9. desember næstkomandi hafa Páll Óskar Hjálmtýsson og lagahöfundarnir í Redd Lights sent frá sér lagið „Megi það byrja með mér". Lagið var frumflutt á útvarpsstöðinni FM 957 og á YouTube í gær og vakti strax mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem Páll Óskar sendir frá sér nýtt lag.

Páll Óskar samdi textann við lagið eftir að hafa heimsótt Síerra Leóne ásamt UNICEF. Eins og hann segir sjálfur: „Ég fékk að fara til Afríku með UNICEF um daginn, og ég kom ekki sami maður til baka."

Í textanum óskar hann þess að heimurinn verði betri staður og ítrekar þá sannfæringu sína að hver og einn geti lagt sitt af mörkum til þess að svo megi verða. Það sé sannarlega hægt að hjálpa börnum sem búa við sára fátækt og neyð – lykillinn sé hjá okkur sjálfum. Páll Óskar hefur verið heimsforeldri frá árinu 2006 og hvetur almenning til að gerast heimsforeldrar.

Dagur rauða nefsins fer fram föstudaginn 9. desember næstkomandi og er landssöfnun fyrir UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna). Í tilefni dagsins eru landsmenn hvattir til að setja upp rauð nef til styrktar UNICEF og horfa á metnaðarfullan skemmti- og söfnunarþátt í opinni dagskrá á Stöð 2 og hér á Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.