Viðskipti innlent

Málarekstri hætt ef Icesave er greitt upp

Verðmæti eigna þrotabús gamla Landsbankans hækkaði um sjötíu milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.Mynd/Valli
Verðmæti eigna þrotabús gamla Landsbankans hækkaði um sjötíu milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins.Mynd/Valli
„Okkur sýnist að ef samningur við bresk og hollensk stjórnvöld hefði verið samþykktur væri hreinn kostnaður ríkissjóðs vegna Icesave-krafna nú kominn niður í tíu til fimmtán milljarða króna. Ef þróunin heldur áfram félli ekkert á ríkissjóð miðað við fyrri forsendur," segir Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis. Icesave-samkomulagið var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu í apríl og gæti málið endað fyrir dómi. Skilanefnd og slitastjórn Landsbankans kynntu í gær uppfært verðmat á eignum hans. Samkvæmt því verða 94 til 99 prósent af forgangskröfum greidd.

Í matinu er ekki að fullu tekið tillit til áætlaðs söluverðmætis 67 prósenta eignarhlutar í bresku matvörukeðjunni Iceland Foods. Hluturinn hefur verið settur í söluferli og eru líkur á að hann verði seldur fyrir áramót. Þetta er stærsta eign gamla bankans. Breskir fjölmiðlar hafa um skeið sagt verðmætið allt að tveimur milljörðum punda, jafnvirði um 370 milljarða króna.

Samkvæmt Icesave-samkomulaginu sem kosið var um í byrjun apríl voru líkur á að 32 milljarða króna vaxtagreiðsla félli á ríkissjóð. Fjármálaráðuneytið reiknaði áætlaðan vaxtakostnað samkvæmt nýja verðmatinu í gær.

Guðmundur bendir á að vextir og gjöld lána sem greiða átti breskum og hollenskum stjórnvöldum lækki eftir því sem fyrr verði greitt úr búi bankans. Áætlað er að fyrsta hlutagreiðsla verði greidd út fyrir áramót. Sú greiðsla gæti numið allt að þriðjungi forgangskrafna.

„Við vorum búin að gera ráð fyrir því að heimtur myndu batna. Þetta er jákvætt," segir Lárus Blöndal, sem sæti átti í samninganefnd Íslands í Icesave-deilunni.- jab


Tengdar fréttir

ESA fer yfir svör stjórnvalda

„Ef stjórnvöld sýna fram á að þau muni greiða Icesave-kröfuna eða semja við bresk og hollensk stjórnvöld þá munum við ekki fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn," segir Per Sanderud, forseti ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×