Viðskipti innlent

Staða stærri fyrirtækja slæm en fer batnandi

Fjárhagsstaða margra stærri fyrirtækja er slæm en hefur farið batnandi frá hruni. Rangir hvatar tefja endurreisn íslensks atvinnulífs. Afleiðing þeirra er m.a. að endurskipulagning fyrirtækja gengur ekki nógu hratt, fyrirtæki koma oft of skuldsett út úr endurskipulagningu og mikil tortryggni og óvissa ríkir á mörkuðum. Nauðsynlegt er að bregðast við þessu.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Samkeppniseftirlitið birtir í dag en hún heitir „Samkeppnin eftir hrun". Í skýrslunni er greint frá rannsókn Samkeppniseftirlitsins á fjárhagsstöðu og fjárhagslegri endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum. Þá er í skýrslunni tekin staða á ýmsum þeim verkefnum sem unnið hefur verið að og varða endurskipulagningu fyrirtækja og samkeppnisaðstæður á Íslandi eftir hrun.

Hrunið hefur haft mikil áhrif á samkeppni í einstökum atvinnugreinum og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja, nauðasamningar og gjaldþrot leiða til breytinga á stöðu fyrirtækja innbyrðis. Þetta er óhjákvæmilegt. Brýnir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að brugðist sé hratt við skuldavanda rekstrarhæfra fyrirtækja.

Bankar ráða yfir tæplega helmingi eignarhlutar á fyrirtækjum samkvæmt rannsókn Samkeppniseftirlitsins á 120 stórum fyrirtækjum á völdum samkeppnismörkuðum. Þá eru talin með fyrirtæki sem eru í mjög slæmri fjárhagslegri stöðu og ráða ekki örlögum sínum. Nánar tiltekið er hlutur banka 46%, einstaklinga 29%, skilanefnda 7%, lífeyrissjóða 7% og annarra 11%. Hlutur banka fór hæst í 68% strax eftir hrun. Staðan er því slæm en fer batnandi. Ástæða er því áfram til mikillar árvekni því samstaða ríkir um það að bankar séu óheppilegir eigendur að atvinnufyrirtækjum og margskonar samkeppnisleg vandamál geta tengst slíku eignarhaldi banka.

Fjárhagsstaða tæplega helmings stærri fyrirtækja er mjög slæm að mati Samkeppniseftirlitsins en um fimmtungur fyrirtækja er í góðri stöðu. Tæplega þriðjungur fyrirtækja hefur lokið fjárhagslegri endurskipulagningu en sama hlutfall fyrirtækja telur sig ekki hafa þörf fyrir endurskipulagningu.

Vandi atvinnulífsins felst í of hægu ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, óánægju með framkvæmd hennar og skorti á trausti og gagnsæi. Þá er fjárhagsstaða um helmings fyrirtækja sem lokið hafa fjárhagslegri endurskipulagningu engu að síður mjög slæm samkvæmt greiningu Samkeppniseftirlitsins.

Sú hætta er fyrir hendi að samkeppni minnki verulega til lengri tíma litið vegna þess að of skuldsett fyrirtæki hafa ekki þrótt til að keppa og nýja aðila skortir fjármagn til að komast inn á markaði þar sem aðgangshindranir eru miklar.

Að mati Samkeppniseftirlitið eru nokkrir hvatar í kerfinu sem toga í ranga átt og tefja ferlið við endurskipulagningu fyrirtækja og endurreisn atvinnulífsins.

Samkeppniseftirlitið telur að taka þurfi á þessum hvötum til að koma í veg fyrir stöðnun eins og varð í Japan í kjölfar bankakreppunnar í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Sá áratugur hefur gjarnan verið kallaður „týndi áratugurinn" þar í landi. Vandinn fólst einkum í því að bankar lokuðu ekki á fyrirtæki með lán í vanskilum eða gripu til nauðsynlegrar endurskipulagningar heldur var lánstími framlengdur og fyrirgreiðslur auknar. Þau fyrirtæki sem svo var ástatt um hafa verið kölluð „uppvakningar". Þetta heiti hafa fyrirtækin fengið til að lýsa þeirri staðreynd að þau voru ekki aðeins afar skuldum hlaðin heldur einnig óskilvirk og óhagkvæm.

Með hliðsjón af niðurstöðum skýrslunnar leggur Samkeppniseftirlitið áherslu á að beita eftirlitsheimildum sínum til að hraða þessu ferli. Þrennt skal nefnt í þessu sambandi:

  1. Tryggja þarf að raunveruleg yfirráð banka yfir fyrirtækjum séu uppi á borðum
  2. Settar verði skorður við beinu eignarhaldi með tímafrestum
  3. Eftirlit með arðsemismarkmiðum verði eflt





Fleiri fréttir

Sjá meira


×