Skoðun

Um sandsíli

Það eru orðin nokkur ár síðan ég stundaði rannsóknir á sandsílum við Ísland og hef ekki fylgst nákvæmlega með rannsóknunum á þeim undanfarin ár en ég er mjög hugsi yfir því ástandi sem virðist vera á stofnum þeirra.

Sandsílin við Ísland eru þrjú: Eiginlegt sandsíli sem er smávaxnast af þeim og virðist vera frekar sjaldgæft. Eina sílið af þessari tegund veiddi ég innan við ytra brotið í fjörunnni í Meðallandsbugt. Sílið sem er langalgengast hér er marsíli og síðan er trönusíli sem verður talsvert stærra en hin tvö, það er frekar fátítt hér við land.

Nær allir nytjastofnar fiska við Ísland hrygna síðla vetrar eða snemma vors, meira að segja loðnan hrygnir í febrúar til apríl þó hún sé náskyld laxfiskunum sem hrygna á haustin.

Sandsílið hrygnir aftur á móti eins og laxfiskarnir á haustin. Sennilegast er það mest á grunnsævi á sandbotni innan við 100 metra dýpi. Meðan ég vann við rannsóknir á sílinu man ég eftir því að ég fann síðla vetrar hrogn sem voru að klekjast út utan við Hellissand á Snæfellsnesi.

Ef sjór hefur verið að hlýna á þeim svæðum við ströndina þar sem sílin hrygna getur það hafa leitt til þess að lirfur klekist fyrr úr hrognunum en æskilegt er, þ.e. áður en blómgun og klak átu hefst í sjónum. Lirfurnar finna þá ekki æti og deyja. Þetta finnst mér vera sennilegasta skýringin á hruni sílastofnanna við Ísland.

Aðrir þættir geta haft verulega slæm áhrif, t.d. nýtt sjávarset á hrygningarsvæðum m.a. gosaska.

Mér hefur einnig oft verið hugsað til blessaðs sílisins þegar verið er að ræða um veiðar með botnveiðarfærum nálægt landi á veturna, t.d. veiðar með dragnót eða botnvörpu þar sem hrognin eru í botninum allan veturinn. Ef þetta eru ástæður hrunsins getum við sennilega lítið gert nema varðandi síðasta þáttinn. Við þurfum að hafa í huga að um er að ræða klak á fiski rétt við ströndina allan veturinn, sem er einn af grundvöllum lífs í sjónum og sjávarfuglalífs. Það ber að vernda þetta klak með því að hlífa því fyrir veiðarfærum og mengun.




Skoðun

Sjá meira


×