Skoðun

Leigumarkaður

Valgarður Egilsson skrifar

Um alla Evrópu starfar leigumarkaður með íbúðarhúsnæði. Nema á Íslandi. Víðast í Evrópu gengur þetta vel. Maður getur leigt sér húsnæði til langs tíma - og verið nokkuð tryggur með það, jafnvel alla ævi. Nokkuð öruggur.

Á Íslandi leggja mjög margir út í að kaupa sér íbúð, t.d. pör sem eru að hefja búskap. Um leið er parið að taka á sig skuldabagga - ok sem það ber alla ævi. Áhyggjur af slíkum skuldabagga sliga fólk og skaða, óvíst að hjónabönd þoli slíkt, jafnvel þótt ástin sé mikil.

Auðvitað skaða miklar fjárhagsáhyggjur hamingju fólks. Tjónið bitnar á fleiri fjölskyldumeðlimum. Slík fjárhagsbinding virkar líka sem fjötur.

Maður heyrði framámenn stjórnmálaflokka segja að það væri í eðli Íslendingsins að vilja eiga það húsnæði sem hann byggi í! Þessi speki er ekki fengin á djúpmiðum.

Leiguhúsnæði kæmi sér vel fyrir: ungt fólk að hefja sambúð, stúdenta, fráskilið fólk, gamalt fólk, fólk sem misst hefur maka sinn, fyrir utan venjulegar vísitölufjölskyldur.

Í eðli Íslendingsins! Og afleiðingarnar: fullt af ofbyggðu húsnæði, sumt hálfbyggt; hins vegar ótal fjölskyldur að missa sitt húsnæði, sem er allt annað en gaman.

Var nokkur spilling í dæminu?

Með leigumarkað á Íslandi væru húsnæðisskuldir landsmanna viðráðanlegri.

Í öllum borgum Evrópu er leigumarkaður stöðugur og víða með hóflegu verðlagi. Á svo að segja okkur að þetta sé ekki hægt á Íslandi ! Eðli Íslendingsins … hvert var það nú aftur?

Hinir sérstöku Íslendingar … búnir undraverðum eiginleikum … geta þeir þetta þá ekki?






Skoðun

Sjá meira


×