Lífið

Regína Ósk með fjölskylduna í tónleikaferð

Regína Ósk er á leiðinni í tónleikaferð um landið ásamt fjölskyldu sinni og tveimur hljóðfæraleikurum. fréttablaðið/anton
Regína Ósk er á leiðinni í tónleikaferð um landið ásamt fjölskyldu sinni og tveimur hljóðfæraleikurum. fréttablaðið/anton
„Ég ætla að taka fjölskylduna með mér, setja alla upp í bílinn og keyra af stað,“ segir Regína Ósk sem er á leiðinni í tónleikaferðalag um landið. Hún ætlar að syngja á sjö fjölskyldu- og jólatónleikum og verða þeir fyrstu í Dalvíkurkirkju á morgun en þeir síðustu í Lindakirkju í Kópavogi 21. desember. Maðurinn hennar, Svenni Þór, ætlar að spila með henni og syngja, auk þess sem níu ára dóttir hennar, Aníta, grípur í hljóðnemann. Hún söng einmitt með mömmu sinni lagið Bráðum koma jólin á jólaplötunni sem Regína Ósk gaf út í fyrra. „Hún er ekki bara þarna af því að hún er dóttir mín. Hún er rosalega góð og mjög efnileg. Hún verður örugglega betri en ég þegar hún verður stór.“ Söngkonan á aðra dóttur sem er álíka efnileg. „Litla stelpan kemur örugglega með eftir svona eitt til tvö ár.“

Einn barnakór verður á hverjum viðkomustað og hafa krakkarnir verið að æfa á fullu síðastliðinn mánuð. Þrír kóranna voru stofnaðir sérstaklega fyrir tónleikana. „Ég er ekkert smá ánægð með það,“ segir hún.

Regína Ósk hefur síðastliðin tvö ár sungið í Lindakirkju á afmælisdegi sínum, 21. desember en ákvað að prófa tónleikaferð um landið í þetta sinn. „Ég fór bara með Frostrósum í fyrra og hafði engan tíma til að fylgja plötunni eftir. Núna verð ég í þriðja skiptið í Lindakirkju. Í staðinn fyrir að halda afmæli held ég tónleika. Þetta er orðin smá hefð hjá fjölskyldunni.“

Nýverið lauk hún söng sínum með Frostrósum þetta árið með sjö tónleikum í Hörpunni. „Það var geðveikt og allt öðruvísi. Við vorum svo mikið nær fólkinu en áður. Maður finnur svo mikið fyrir fólkinu.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.