Innlent

Öskjuhlíðardagurinn haldinn hátíðlegur á morgun

Öskjuhlíðardagurinn verður haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn á morgun. Mikið verður um dýrðir en Jón Gnarr borgarstjóri setur hátíðina klukkan ellefu í Sólinni, aðalbyggingu Háskólans í Reykjavík.

Þá verður undirritað samkomulag um stofnun starfshóps sem ætlað er að móta samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags Íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði.

„Eftir undirritun samkomulagsins bregður borgarstjóri sér út undir bert loft og kennir borgarbúum að búa til moltu,“ segir í tilkynningu frá HR.

Á meðal annarra viðburða sem boðið verður upp á má nefna rathlaupsleik fyrir alla fjölskylduna, gönguferðir um Öskjuhlíðina með leiðsögn, siglingar um Fossvog, leiðbeiningar um vorverkin og sjóbað í Nauthólsvík.

„Þá verður opið hús í Barnaskóla Hjallastefnunnar þar starfsemi skólans og verk nemenda verða kynnt almenningi. Á bílaplani HR verður stærðarinnar skógarsög sem breytir trjám í verðmæta nytjahluti og í aðalbyggingu HR sýna nemendur HR og Listaháskólans gagnvirk listaverk sem þeir hafa skapað í vetur. Þá má nefna að einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar, Ragnar Bjarnason, ætlar að skemmta gestum í hádeginu í aðalbyggingu HR og síðdegis stígur svo Gleðisveit lýðveldisins á svið en hún er skipuð nemendum MH og var á dögunum kjörin besta skemmtiatriði Gettu betur í vetur. Síðast en ekki síst má nefna að fjögur af bestu ljóðskáldum þjóðarinnar flytja ljóð sín í hlíðum Öskjuhlíðar í lok skipulagðra gönguferða.“

Áhugasömum er bent á að kynna sér ítarlega dagskrá á www.oskjuhlid.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×