Viðskipti innlent

Hjartavernd tapaði rúmum 80 milljónum á viðskiptum við Landsvaka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landsvaki var dótturfélag gamla Landsbankans.
Landsvaki var dótturfélag gamla Landsbankans. mynd/ valli.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að Landsvaka, dótturfélag gamla Landsbankans, er ekki skylt að greiða Hjartavernd tæpar 83 milljónir króna sem töpuðust þegar lokað var fyrir viðskipti með fjárfestingasjóði Landsvaka, sem nefndur var Peningabréf, þann 6. október 2008, daginn sem neyðarlögin voru sett. Hjartavernd óskaði eftir innlausn á hlutdeildarskírteinum sínum í fjárfestingarsjóðnum með tölvupósti rétt fyrir tíu þann dag, en pöntunin er skráð hjá Landsvaka klukkan tíu mínútur í fjögur.

Á stjórnarfundi hjá Landsvaka sem haldinn var að morgni þessa dags og lauk klukkan 10 var tekin ákvörðun um að loka fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini sjóða sem áttu bréf á þau fjármálafyrirtæki sem fjármálaeftirlitið hafði lokað fyrir viðskipti með. Var þar meðal annars um að ræða alla peningamarkaðssjóði Landsvaka. Tekið er fram í fundargerð að lokun fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini sé gerð með hagsmuni hlutdeildarskírteinishafa að leiðarljósi og til að tryggja jafnræði þeirra.

Hjartavernd byggði kröfuna sína fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á því að beiðni um innlausn hafi borist áður en ákvörðun var tekin um frestun á innlausn bréfa í Peningabréfum Landsvaka. Það er aftur á móti niðurstaða héraðsdómara að þær sérstöku aðstæður sem hafi verið til staðar á fjármálamarkaði hinn 6. október 2008 hafi orðið til þess að Landsvaka hafi verið heimilt að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Skipti þá ekki máli hvenær dags beiðni Hjartaverndar um innlausn barst enda liggi fyrir að ekki hafi verið opnað fyrir innlausnir hlutdeildarskírteina hjá stefnda þann dag eða síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×