Handbolti

Góð frammistaða Björgvins Páls ekki nóg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll í leik með Magdeburg.
Björgvin Páll í leik með Magdeburg. Nordic Photos / Getty Images
Björgvin Páll Gústavsson varði tólf skot þegar að Magdeburg tapaði fyrir Flensburg á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 31-28.

Björgvin Páll byrjaði á bekknum en kom inn á þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum og staðan 5-3, Flensburg í vil. Gert Eijlers, hinn markvörður Magdeburg, hafði þá varið eitt skot.

Björgvin Páll fékk því alls 26 mörk á sig í dag og með 46 prósenta hlutfallsmarkvörslu sem þykir afar öflug frammistaða í þýsku úrvalsdeildinni.

Flensburg var skrefinu framar lengst af í leiknum en Magdeburg var þó aldrei langt undan. Staðan í hálfleik var jöfn, 17-17.

Magdeburg komst svo yfir þegar stundarfjórðungur var til leiksloka, 25-24. Næstu mínúturnar voru heimamenn með undirtökin og var það ekki síst markvörslu Björgvins Páls að þakka.

En sóknarmenn Magdeburg réðu hins vegar ekkert við gríðarlega öflugan varnarleik Flensburg og skoruðu ekkert á sjö mínútna kafla. Gestirnir gengu á lagið og þá sérstaklega línumaðurinn Michael Knudsen frá Danmörku sem skoraði alls tólf mörk í leiknum, þar af fjögur síðustu mörk Flensburg í leiknum.

Leikmenn Flensburg leituðu sífellt inn á línuna á Knudsen sem brást ekki traustinu. Hann nýtti hvert einasta færi sem hann fékk síðustu fimm mínútur leiksins og tryggði sínum mönnum sigurinn.

Flensburg er með fjórtán stig eftir sigurinn og er í fjórða sæti deildarinnar. Magdeburg er í áttunda sætinu með tíu stig en liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×