Innlent

Segir pólitík hafa ráðið úrslitum um brotthvarf Alcoa

Gunnlaugur Stefánsson forseti bæjarstjórnar Norðurþings
Gunnlaugur Stefánsson forseti bæjarstjórnar Norðurþings
Það er pólítísk niðurstaða sem veldur því að Alcoa hættir við álver á Húsavík, að mati forseta bæjarstjórnar Norðurþings, sem segir þetta afleiðingu af stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Tilkynning Alcoa síðdegis í gær kom raunar fæstum á óvart sem fylgst hafa með framvindu málsins. Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings, telur að hér hafi stefnubreyting, sem varð með valdatöku ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, ráðið úrslitum.

,,Það er ekkert launungarmál. Í okkar huga hefur orðið mikil breyting á stefnu ríkisstjórnar og Landsvirkjunar í þessum málum. Ég held að þetta sé afleiðing af þeirri stefnubreytingu, númer eitt," segir Gunnlaugur.

Spurður hvort þessi ákvörðun sé þá ekki á viðskiptalegum forsendum heldur pólitísk niðurstaða svarar Gunnlaugur að menn hafi fyrir þremur árum haft góðar væntingar um að þarna væri næg orka. "Já. Ég lít svo á að þetta sé mjög pólitísk niðurstaða," svarar Gunnlaugur.

Hann segir Þingeyinga þó ekki ætla að gefast upp og kveðst fullyrða að það sé stefna Þingeyinga allra að nýta orkuna til að skapa 800-1.000 störf á næstu árum og áratugum í héraðinu. Hann kveðst vilja leyfa sér að vera bjartsýnn í þeim efnum og bindur vonir við samstarf sem sé að hefjast við þýska fyrirtækið PCC um uppbyggingu kísilverksmiðju. Einnig vonist hann til að viðræður Landsvirkjunar við aðra aðila leiði til uppbyggingar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.