Íslenski boltinn

Tryggvi Guðmunds: Ég er með svaka fót maður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV, var ekkert sérstaklega sáttur þrátt fyrir að Eyjamenn hefðu jafnað leikinn á elleftu stundu.

„Æi ég veit það ekki, ekkert sérlega sætt. Mig langaði í þrjú stig en þetta er auðvitað betra en að tapa fyrir þeim og hleypa þeim langt frá okkur. Ég er samt ekkert yfir mig ánægður með þetta."

Undirrituðum fannst fátt benda til þess að Eyjamenn myndu jafna metin í restina. KR-ingar með tökin eftir að þeir skoruðu sitt annað mark.

„Jú auðvitað kemur þetta í lokin og þeir reyna að halda þessu enda þrjú stig mjög mikilvæg fyrir þá. En karakter og flott mark  en mikið svakalega langaði mig í þrjú stig."

Tryggvi jafnaði metin með stórkostlegu marki úr aukaspyrnu.

„Já, ég hef nú tekið nokkrar aukaspyrnur en það var orðið langt síðan ég setti úr aukaspyrnu. Það var kominn tími á þetta."

Spyrnan var af löngu færi og eflaust fáir sem reiknuðu með að Tryggvi gæti skorað af þessu færi frekar en nokkur annar.

„Ég er með svaka fót maður," segir Tryggvi og hlær. „Ég smellhitti hann. Auðvitað var smá vindur í bakið og það hjálpaði aðeins."

Tryggvi sagði að ÍBV hefði lagt upp með að sækja þrjú stig í Vesturbæinn.

„Við komum hingað til að ná í þrjú stig. Það var lagt upp með það. Það gekk ekki alveg en svona er þetta. Það er ekkert auðvelt að koma hingað og ætla sér þrjú stig, það eru ekkert mörg lið sem ætla sér það eða gera það. En þetta er flott lið, KR-liðið. Það verður ekki tekið af þeim."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×