Innlent

Kannaðu útfjólubláa stuðulinn til að forðast krabbamein

Húðlæknastöðin mælir með því að fólk kynni sér styrk skaðlegra sólargeisla áður en haldið er út í sólina.
Húðlæknastöðin mælir með því að fólk kynni sér styrk skaðlegra sólargeisla áður en haldið er út í sólina. Mynd/Valli
Húðlæknastöðin vinnur þessa dagana að því að vekja athygli á svokölluðum útfjólubláum (ÚF) stuðli sem segir til um styrk skaðlegra sólargeisla, en geislarnir geta valdið bæði sólbruna og húðkrabbameini ef ekki er farið varlega. Því hærri sem stuðullinn er, því styttri tíma þarf til að húð roðni í sólinni.

Mælingar sýndu að ÚF stuðull mældist 5 eða hærri 16 daga í júní 2010, en ef stuðullinn mælist 5 þá þolir Íslendingur með venjulega húðgerð eingöngu að vera um eina klukkustund í sólinni án þess að húðin roðni, ef ekki er notuð sólarvörn. Síðastliðna viku hefur ÚF stuðullinn hinsvegar mælst í kringum 6 á hverjum degi.

Algengi allra húðkrabbameina hefur aukist á síðari árum og hefur sortuæxlum fjölgað mest, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameina auk þess sem þau eru algengasta krabbameinið hjá konum á aldrinum 15-34 ára.

Eftir árið 1985 hækkaði árlegt aldursstaðlað nýgengi kvenna og komst nálægt því að fjórfaldast, en tíðnin hefur þó eitthvað lækkað á síðustu árum eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu Húðlæknastöðvarinnar.

Hægt er að nálgast ÚF stuðulinn í rauntíma á vef Húðlæknastöðvarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×