Viðskipti innlent

Hátt í 300 ársverk vegna námsmannaíbúða

Mynd/Pjetur
Ríkisstjórnin samþykkti í dag fjárheimildir fyrir Íbúðalánasjóð sem tryggja fjármögnun stúdentagarða í Vatnsmýrinni. Um er að ræða 280 námsmannaíbúðir og geta framkvæmdir hafist í haust, en áætlað er að þær skapi um 300 ársverk.

Líkt og greint var frá fyrr í mánuðinum hefur borgarráð samþykkt breytingar á aðalskipulagi borgarinnar vegna háskólasvæðisins þar sem gert er ráð fyrir að þétt byggð rís með umræddum stúdentaíbúðum, starfsemi Háskóla Íslands og Vísindagörðum.

Heildarkostnaður vegna stúdentaíbúðanna er áætlaður um 4 milljarðar króna og mun Íbúðalánasjóður veita lán fyrir 90% kostnaðarins, að því er fram kemur á vef velferðarráðuneytisins. Samkvæmt lögum um húsnæðismál og reglugerð um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, er Íbúðalánasjóði heimilt að veita lán til framkvæmda af þessu tagi á 3,5% vöxtum.

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur áður samþykkt lánsvilyrði til Félagsstofnunar stúdenta vegna fyrirhugaðra framkvæmda en með fyrirvara um að fjárheimildir Íbúðalánasjóðs væru tryggðar á þeim tíma sem lánin koma til afgreiðslu, að öllu óbreyttu árin 2013 og 2014. Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt tillaga Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, um fjárheimildir til Íbúðalánasjóðs árin 2013 og 2014 vegna áformaðra framkvæmda Félagsstofnunar stúdenta.

Fram kemur á vef velferðarráðuneytisins að undirbúningur framkvæmda vegna stúdentaíbúðanna sé vel á veg kominn. Framkvæmdir geta farið af stað í haust og er sem fyrr segir áætlað að þær skapi um 300 ársverk. Gert er ráð fyrir að fyrri áfanga verksins ljúki í árslok 2013 en að framkvæmdunum í heild ljúki árið 2014.




Tengdar fréttir

Vísindagarðar og hátt í 300 stúdentaíbúðir

Borgarráð hefur samþykkt breytingar á aðalskipulagi borgarinnar vegna háskólasvæðisins þar sem gert er ráð fyrir að þétt byggð rís með allt að 300 stúdentaíbúðum, starfsemi Háskóla Íslands og Vísindagörðum. Um er að ræða um uppbyggingu á um 74 þúsund fermetra lóð sem afmarkast af Eggertsgötu, Oddagötu og Sturlugötu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×