Viðskipti innlent

Kreppan vægari ef Ísland hefði verið aðili að evrusvæðinu

Hafsteinn Hauksson skrifar
Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson.
Fjármálakreppan á Íslandi hefði síður verið alvarleg ef Ísland hefði verið aðili að evrusvæðinu. Þetta segir seðlabankastjóri, sem þó gagnrýndi regluverk Evrópu í erindi sínu í Englandsbanka.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, heimsótti lánshæfismatsfyrirtæki og banka í Lundúnum fyrir helgi. Þá átti hann einnig fund með Mervyn King, seðlabankastjóra Bretlands, og hélt þar að auki erindi um íslenska hrunið í Englandsbanka á föstudag, en það er seðlabanki landsins.

Í efnisatriðum erindisins kemur fram gagnrýni Más á lausatök í ríkisfjármálum Íslands í aðdraganda hrunsins, en þau hafi leitt til þess að of mikið hafi mætt á peningastefnunni. Það hafi orsakað mikinn vaxtamun við útlönd, sem síðan hafi orsakað mikið innflæði fjármagns og ofhitnun í hagkerfinu.

Seðlabankastjórinn fjallaði jafnframt um þá ákvörðun hins opinbera að ábyrgjast ekki alla starfsemi íslensku bankana. Þeir hafi verið of stórir til að bjarga þeim, og tilraunir til þess hefðu leitt til stórslyss.

Hann fjallaði einnig um samskipti Íslands við aðrar þjóðir þegar kom að því að bregðast við kreppunni, og kallar þau ruglingsleg og jafnvel fjandsamleg. Til dæmis hafi brunaútsala á góðum eignum bankanna leitt til þess að heimtur kröfuhafa verði verri, auk þess sem bresk yfirvöld hafi fellt Kaupþing með því að frysta eignir bankans.

Már fjallaði einnig um lærdóminn af íslenska hruninu. Hann sagði að fljótandi gengi sjálfstæðs gjaldmiðils hafi bæði verið hluti af vandanum og lausninni við það. Hann segir þó að aðild að evrusvæðinu hefði komið í veg fyrir gjaldeyrisvandræði landsins og bankakreppan hefði þannig síður verið alvarleg, þó hún sé engin töfralausn.

Már gagnrýndi engu að síður Evrópska fjármálaregluverkið, sagði það gallað, og sérstaklega áhættusamt fyrir lítil lönd með aðra gjaldmiðla en Evruna. Í framtíðinni þurfi að færa eftirlit, innstæðutryggingar og viðbragðsáætlanir í hendur Evrópusambandsins að meira leyti en nú er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×