Viðskipti innlent

Ólíklegt að gengisforsendur kjarasamninga standi

Greining Íslandsbanka segir að áhugavert verði að fylgjast með áhrifum af þeim fyrirvörum sem settir voru gagnvart stjórnvöldum í nýgerðum kjarasamningum. Ólíklegt sé að gengisforsendurnar um 10% styrkingu krónunnar gangi eftir.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að samhengi sé á milli þriggja af fyrirvörunum.  Þannig mun 10% styrking krónunnar fram til ársloka 2012, eins og gert er ráð fyrir í fyrirvörunum, að öllum líkindum bæði tryggja kaupmáttaraukningu og stuðla að verðbólgu innan við 2,5% á tímabilinu.

Þetta setur hinsvegar verulega pressu á Seðlabankann að styðja beint eða óbeint við gengi krónu. Bankinn verður þannig að fara sér hægar við aukningu gjaldeyrisforðans en annars væri ef krónan á að styrkjast að ráði.

„Einnig gætu Seðlabankamenn túlkað stöðuna þannig að vextir þyrftu að vera hærri en ella næstu misserin til þess að afstýra uppsögn samninganna og frekari óróa á vinnumarkaði. Þó verður að halda til haga að Seðlabankinn kemur ekki að þessu samkomulagi,“ segir í Morgunkorninu.

„Raunar hefur bankinn ítrekað lýst vilja til þess að auka gjaldeyriskaup sín og nýjasta gengisspá hans í Peningamálum í apríl gerir ekki ráð fyrir styrkingu krónu í líkingu við það sem lagt er til grundvallar í samningunum nú. Má í því ljósi velta fyrir sér hversu líklegt það sé að gengisforsendan í samningunum gangi eftir.“

Þá segir að einnig megi segja að þeir innan ríkisstjórnarinnar sem hafa viljað auka erlenda fjárfestingu og uppbyggingu orkufreks iðnaðar fái hér nokkra viðspyrnu gagnvart þeim stjórnarliðum sem neikvæðari hafa verið gagnvart slíkri uppbyggingu. Geta þeir fyrrnefndu vísað til yfirlýsingarinnar þegar ýta þarf áfram málum sem tengjast orkufrekum iðnaði.

„Áhrifin af slíku eru í raun tvöföld því stóriðjufjárfesting stuðlar bæði að því að uppfylla skilyrðið um fjárfestingaruppbyggingu og innflæði gjaldeyris henni tengt er einnig lykilforsenda þess að hægt sé að styrkja krónuna næstu misserin,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×