Lífið

Miley Cyrus hjólar í slúðurpressuna

Miley Cyrus segist elska hinar nýju kvenlegu línur sínar.
Miley Cyrus segist elska hinar nýju kvenlegu línur sínar.
Ungstirnið Miley Cyrus hefur skorið upp herör gegn slúðurpressunni og húðskammað hana fyrir að gagnrýna holdafar sitt. Cyrus, sem er 18 ára, hefur tekið út þroska á undanförnum mánuðum en pressan vestanhafs hefur beinlínis gagnrýnt hana fyrir að halda ekki barnalegum vexti sínum. Hún skrifaði á Twitter-síðu sína í vikunni um mikilvægi þess að þykja vænt um líkama sinn og beindi svo orðum sínum að gagnrýnendum sínum. „Hér er dæmi um það sem þið komið til leiðar með því að kalla stelpur eins og mig feitar,“ skrifaði Cyrus og birti mynd af ungri stúlku sem er langt leidd af anorexíu.

Miley Cyrus varð heimsfræg aðeins 14 ára í hlutverki Hönnu Montana og hefur því verið í kastljósi fjölmiðla öll unglingsárin. Þrátt fyrir að hafa valdið fjaðrafoki nokkrum sinnum með misgóðum ákvörðunum virðist Cyrus hafa skoðanir sínar á hreinu varðandi útlitskröfurnar í Hollywood. Á Twitter-síðu hennar mátti einnig sjá mynd af Marilyn Monroe sem hún hafði merkt með orðunum: „Sönnun þess að hægt er að vera eftirsóknarverður jafnvel þótt læri þín snertist.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.