Viðskipti innlent

Yfir helmingur lántakenda ÍLS nýta greiðsluúrræði

Um 51% lántakenda hjá Íbúðalánasjóði hafa nýtt sér þau greiðsluúrræði sem sjóðurinn býður lántakendum sínum. Þar á meðal eru greiðslujöfnun ásamt frystingu og hlutafrystingu lána.

Þetta kemur fram í ársskýrslu sjóðsins fyrir síðasta ári. Þar segir að eflaust dyljast nokkur vanskil í þessum greiðsluúrræðum sem munu að einhverjum hluta koma fram sem vanskil þegar úrræðum lýkur. Í þeim tilvikum er lántakendum vísað á önnur úrræði sem þeim kunna að standa til boða.

Uppreiknuð staða lána í frystingu eða hlutafrystingu við lok árs nam um 40 milljörðum króna eða sem samsvarar því að lántakar um 5% útlána hafi nýtt sér möguleika til frystingar að hluta eða að öllu leyti.

Vanskil hafa aukist á milli ára en um 6,5% lántakenda sjóðsins voru með einn eða fleiri gjalddaga í vanskilum í árslok 2010. Vanskil umfram 90 daga námu 3,9 milljörðum samanborið við 2,2 milljarða árið áður.

Vanskil einstaklinga og lögaðila umfram 90 daga hafa aukist úr því að vera 0,29% af útlánum í upphafi árs í það að vera 0,51% í lok árs 2010. Aðgerðir stjórnvalda til lækkunar skulda einstaklinga munu lækka þessar vanskilafjárhæðir þegar aðgerðin er framkvæmd á árinu 2011.


Tengdar fréttir

Íbúðalánasjóður tapaði 34,5 milljörðum í fyrra

Samkvæmt ársreikningi Íbúðalánasjóðs fyrir síðasta ár var 34,5 milljarðar króna tap af rekstri sjóðsins. Þar af eru 22,8 milljarðar króna kostnaður vegna 110% niðurfærslu lána einstaklinga og 6,8 milljarðar vegna sérstakrar varúðarniðurfærslu á lánum lögaðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×