Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður tapaði 34,5 milljörðum í fyrra

Samkvæmt ársreikningi Íbúðalánasjóðs fyrir síðasta ár var 34,5 milljarðar króna tap af rekstri sjóðsins. Þar af eru 22,8 milljarðar króna kostnaður vegna 110% niðurfærslu lána einstaklinga og 6,8 milljarðar vegna sérstakrar varúðarniðurfærslu á lánum lögaðila.

Í tilkynningu segir að rekstrarniðurstaða ársins 2010 sé mótuð af efnahagsástandi og virðisrýrnun útlána, þar sem aðgerðir stjórnvalda sem eiga að stuðla að lækkun skulda yfirveðsettra heimila hafa umtalsverð áhrif.

Eigið fé Íbúðalánasjóðs í árslok var 8,6 milljarðar samanborið við rúma 10 milljarða í árslok 2009 og hefur þar verið tekið tillit til 33 milljarða króna eiginfjárframlags ríkissjóðs en framlagið var greitt til sjóðsins nú í lok mars.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins sem reiknað er samkvæmt ákvæðum í reglugerð um Íbúðalánasjóð er 2,2% en var 3% í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.

Í árslok námu útlán 751 milljarði króna og lækkuðu útlán um 5,3 milljarða á árinu. Lántaka sjóðsins nam 826 milljörðum og hækkaði um 42,4 milljarða á árinu. Heildareignir sjóðsins í lok árs námu 836 milljörðum króna.

Heildarfjárhæð nýrra útlána Íbúðalánasjóðs árið 2010 nam um 26,9 milljörðum samanborið við 30,7 milljarð árið 2009. Fjöldi nýrra útlána var 2.566 en kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru á sama tíma 3.972 alls skv. heimildum Fasteignaskrár Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×