Viðskipti innlent

Greiddi atkvæði með ofurlaunum - stjórnarumboð ekki endurnýjað

Bankastjóri Arion banka er með rúmlega fjórar milljónir í mánaðarlaun.
Bankastjóri Arion banka er með rúmlega fjórar milljónir í mánaðarlaun.
Stjórn Bankasýslu ríkisins (BR) hefur ákveðið að endurnýja ekki umboð stjórnarmanns bankasýslunnar í Arion banka vegna launamála bankastjórans.

Í tilkynningu frá bankasýslunni segir að tekið hafi verið til umfjöllunar ákvarðanir um laun forstjóra Arion banka og Íslandsbanka og í því sambandi óskað eftir og fengið greinargerðir stjórnarmanna BR í bönkunum um atkvæðagreiðslu þeirra og grundvöll ákvörðunar við ákvörðun launa forstjóra bankanna á síðasta ári.

Í tilkynningunni segir að niðurstaða stjórnarinnar sé sú að rétt sé að endurnýja ekki umboð stjórnarmanns BR í Arion banka, Kristjáns Jóhannssonar, á aðalfundi bankans sem haldinn verður í þessari viku.

Ástæðan eru fréttir af launum bankastjóra Íslandsbanka og Arion banka sem hækkuðu talsvert í janúar á síðasta ári og Vísir greindi fyrst frá.

Stjórnin telur að með tilliti til eðlis málsins hefði verið rétt af fulltrúa BR í Arion banka að taka ekki þátt í afgreiðslu málsins bæði í ljósi viðkvæmrar stöðu bankanna við endurreisn bankakerfisins, nú þegar stefnt er að því að byggja upp traust og trúverðugleika fjármálafyrirtækja, og viðleitni stjórnvalda til að hafa hemil á launahækkunum hærri launa.

Svo segir í yfirlýsingunni: „Í ljósi ofangreinds er það niðurstaða stjórnar að rétt sé að endurnýja ekki umboð stjórnarmanns BR í Arion banka á aðalfundi bankans sem haldinn verður í þessari viku."

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Höskuldur fékk tíu milljóna eingreiðslu

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, fékk tíu milljóna króna eingreiðslu þegar hann hóf störf hjá bankanum 1. júní í fyrra sem reiknast inn í laun hans. Bankastjórar Arion og Íslandsbanka ætla ekki að taka á sig launalækkanir.

Bankastjórar rjúka upp í launum

Laun bankastjóra Arion hækkuðu um rúm fjörtíu prósent á síðasta ári. Þannig greindi Vísir frá því í gær að bankastjóri Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson, fengi greiddar um 4,3 milljónir í laun á mánuði samkvæmt ársskýrslu bankans. Þá hafa laun yfirstjórnenda bankans hækkað um 37 prósent milli ára.

Þjóðin þarf að þola laun bankastjóranna

Efnahags- og viðskiptaráðherra segir ekki óeðlilegt að bankarnir hagi launum æðstu stjórnenda þannig að almenningur þoli þau, á sama tíma og innistæður bankanna séu tryggðar af ríkinu.

Jóhanna: Engin siðleg réttlæting á ofurlaunum bankastjóra

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að engin siðleg rættlæting sé á þeim ofurlaunum sem æðstu stjórnendur Arionbanka og Íslandsbanka hafa fengið á liðnu ári. Framferði þeirra sé óþolandi ögrun og bein ógn við stöðugleika og frið í samfélaginu.

Steinþór með lægstu bankastjóralaunin

Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans er launalægstur bankastjóra stóru viðskiptabankanna. Hann hefur tæplega 1,1 milljón króna á mánuði, að því er fram kemur í úrskurði kjararáðs frá því í febrúar á síðasta ári, og er ekki hálfdrættingur við Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, sem er með 2,6 milljónir á mánuði. En hún er hinsvegar liðlega hálfdrættingur við Höskuld Ólafsson, bankastjóra Arion banka, sem er með 4,3 milljónir á mánuði, eða tæplega fjórfalt hærri laun en bankastjóri Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×