Viðskipti innlent

Höskuldur fékk tíu milljóna eingreiðslu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Höskuldur Ólafsson.
Höskuldur Ólafsson.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, fékk tíu milljóna króna eingreiðslu þegar hann hóf störf hjá bankanum 1. júní í fyrra sem reiknast inn í laun hans. Bankastjórar Arion og Íslandsbanka ætla ekki að taka á sig launalækkanir.

Samkvæmt ársreikningi Arion banka var Höskuldur Ólafsson bankastjóri með 30 milljónir króna í laun á síðasta ári, en hann tók til starfa 1. júní í fyrra. Reiknað var út að laun hans væru því 4,3 milljónir króna á mánuði, en það gerir hann að launahæsta bankastjóranum hér á landi eftir hrun. Miðað við þetta hækkuðu laun bankastjóra Arion banka um 40 prósent milli ára. Þá hækkuðu laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, um þriðjung en hún var með 2,6 milljónir króna á mánuði í fyrra.

Fréttir um launahækkanir bankastjóranna ollu nokkurri reiði í samfélaginu en forsætisráðherra sagði í gær að engin siðleg réttlæting væri á þessum ofurlaunum og framferði bankastjóranna væri óþolandi ögrun og bein ógn við stöðugleika og frið í samfélaginu.

Arion banki leiðrétti ekki fréttir um laun bankastjórans fyrstu dagana, en samkvæmt upplýsingum þaðan fékk Höskuldur tíu milljóna króna eingreiðslu þegar hann hóf störf í bankanum og það sé inni í upphæðinni yfir heildarlaun í ársreikningnum, þ.e þeim 30 milljónum króna sem hann fékk á síðasta ári.

Höskuldur er því ekki með 4,3 milljónir króna á mánuði heldur 2,9 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka var eingreiðslan vegna áunninna réttinda sem hann var talinn eiga rétt á hjá Valitor, en þar starfaði hann áður. Bankinn vildi hins vegar ekki gefa upp um hvaða áunnu réttindi væri að ræða.

Höskuldur Ólafsson hyggst ekki taka á sig launalækkun, eftir því sem fréttastofa kemst næst. Þá vill Arion banki ekki tjá sig um ummæli forsætisráðherra. Íslandsbanki vill ekki heldur tjá sig um ummæli forsætisráðherra og þá hefur ekki komið til tals í Íslandsbanka að lækka laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra samkvæmt upplýsingum frá bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×