Skoðun

Byggjum ímynd á staðreyndum

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Mengun umhverfisins er sú ógn sem átti hvað mestan þátt í að hrinda af stað vakningu í umhverfismálum víða um heim eftir miðja síðustu öld. Þegar óvenju dimmt mengunarský lagðist yfir London í desember 1952 og olli dauða þúsunda manna í kjölfarið var hafist handa þar í landi við að stemmu stigu við kolamenguninni. Þegar Rachel Carson skrifaði tímamótaverk sitt - Raddir vorsins þagna - árið 1962 opnuðust augu manna fyrir afleiðingum víðtækrar notkunar skordýraeiturs og skyldra efna. Þegar þúsundir manna veiktust og börn fæddust afmynduð í bænum Minamata í Japan röktu menn það að endingu til kvikasilfursmengunar frá einni verksmiðju. Öll þessi atvik og önnur til sýndu fram á að við gætum kafnað í eigin mengun ef ekki yrði rönd við reist.

Íslendingar hafa lagt lóð á vogarskál alþjóðlegrar umræðu um mengun með áherslu á hafið. Við sjáum ávöxtinn af því starfi í samþykkt Stokkhólms-samningsins um þrávirk lífræn efni og aðgerðaáætlun Sameinuðu þjóðanna sem tekur á mengun hafs frá landi. Á vettvangi OSPAR - samningsins um vernd NA-Atlantshafsins höfum við náð því framgengt að losun geislavirkra efna í Atlantshafið hefur snarminnkað. Það hefur því margt áunnist á undanförnum árum og áratugum.

Þrátt fyrir þennan árangur á alþjóðavísu höfum við ekki lagt sömu áherslu á mengunarvarnir og nágrannaríki okkar. Á síðustu árum höfum við séð svifryk verða að heilbrigðisvandamáli í höfuðborginni. Mengun af völdum brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum er nýlegt vandamál sem kallar á rannsóknir, vöktun og varnir. Umræða um díoxínmengun frá sorpbrennslum hefur einnig vakið upp spurningar um reglusetningu, vöktun og upplýsingagjöf. Sú spurning vaknar því hvort við höfum ef til vill orðið of værukær í þessum efnum og hvort ekki megi gera betur.

Vaxtarbroddar í íslensku atvinnulífi tengjast ófáir ímynd hreinleika og umhverfisverndar. Við seljum útlendingum hreint sjávarfang og lambakjöt án aukefna og við seljum ferðamönnum tært loft og vatn. Þessi ímynd verður að vera byggð á staðreyndum. Þess vegna verðum við að búa að reglulegri vöktun og góðum og aðgengilegum upplýsingum um alla helstu þætti sem lagðir eru til grundvallar í alþjóðlegum samanburði. Góð vöktun á mengun í lofti, láði og legi, hvort sem hún er augljóst vandamál eða ekki, er því skynsamleg fjárfesting.

Umhverfisráðuneytið vinnur nú að ýmsum málum sem tengjast mengunarvörnum. Fyrir Alþingi liggur frumvarp til laga um stjórn vatnamála, þar sem markmiðið er að vernda gæði vatns. Einnig er starfandi nefnd um loftmengun og lýðheilsu sem skilar niðurstöðum á þessu ári. Ég bind miklar vonir við að það starf gefi okkur heildstæða mynd af loftmengun - jafnt utandyra sem innanhúss - sem verði grundvöllur forgangsröðunar og aðgerða til að bæta heilsu fólks, ekki síst barna. Umhverfisráðuneytið hefur á síðustu misserum skerpt á stefnumótun í loftslagsmálum, náttúruvernd og líffræðilegri fjölbreytni, svo dæmi séu tekin. Ég tel að ástæða sé til að hefja samskonar endurskoðun á stefnu okkar á sviði mengunarvarna og vöktunar. Þannig getum við byggt ímynd Íslands á staðreyndum.

 




Skoðun

Sjá meira


×