Viðskipti innlent

Agnar sest í stjórn Arion banka fyrir hönd Bankasýslunnar

Aðalfundur Arion banka fyrir starfsárið 2010 var haldinn síðdegis í gær, fimmtudaginn 24. mars, í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf.

Á fundinum var kjörin ný stjórn. Í aðalstjórn voru kjörin Agnar Kofoed-Hansen, Guðrún Johnsen, Jón G. Briem, Måns Höglund, Monica Caneman og Theodór S. Sigurbergsson. Agnar er fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórninni.

Varamenn í stjórn bankans voru kjörnir Guðjón Ólafur Jónsson, Guðrún Björnsdóttir, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Sigurbjörn Gunnarsson, Una Eyþórsdóttir og Þóra Hallgrímsdóttir.

Á fundinum var samþykkt, með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins, að greiða íslenska ríkinu 6,5 milljarða króna í arð í formi víkjandi láns eða víkjandi skuldabréfs. Einnig var samþykkt að hlutaðeigandi aðilar geti komið sér saman um annað form greiðslunnar. Arðgreiðslan er í samræmi við samkomulag sem gert var þegar Kaupskil keypti 87% af hlut ríkisins í Arion banka þann 8. janúar 2010. Ekki verður greiddur út arður vegna ársins 2010 að öðru leyti.

Monica Caneman, formaður stjórnar Arion banka, flutti skýrslu stjórnar. Í máli sínu kom hún meðal annars inn á það mikilvæga endurreisnarstarf sem fram fer hér á landi og þau jákvæðu batamerki sem víða má sjá, til dæmis í glímunni við fjárlagahallann, atvinnuleysi og skuldamál heimila og fyrirtækja. Einnig benti hún á að Íslendingar eru að mörgu leyti komnir lengra í endurreisn efnahagslífsins en margar aðrar þjóðir sem enn kljást við vandamál fjármálafyrirtækja, fjárlagahalla og mikið atvinnuleysi. Ísland njóti þess að ráða nú yfir bankakerfi sem ekki hefur brýna þörf fyrir ytri fjármögnun og að mikilli óvissu á eignahlið bankakerfisins hafi verið eytt.

Að mati Monicu skilaði kjarnastarfsemi bankans á árinu 2010 góðum árangri. Á árinu var lögð var rík áhersla á vinnu við endurskipulagningu skuldamála viðskiptavina og miðaði þeirri vinnu vel þó enn sé mikið verk óunnið. Í máli hennar kom fram að Arion banki stefnir á að klára úrlausnarmál viðskiptavina sinna á þessu ári.

Monica fjallaði um þá áherslu sem stjórn og stjórnendur bankans lögðu á árinu á að styrkja eiginfjárgrunn bankans og þann árangur sem náðist í þeim efnum. Á seinni helmingi ársins jókst eiginfjárhlutfall bankans um 2,6 prósentustig, fór úr 16,4% í 19%. Ein helsta ástæða mikilvægis sterkrar fjárhagsstöðu er sú óvissa sem að mati Monicu er enn er til staðar innan íslenska fjármálakerfisins – óvissa sem brýnt er að eyða sem fyrst.

Monica lagði áherslu á að horfur fyrir árið 2011 væru jákvæðar og að Arion banki væri vel í stakk búinn til að takast á við verkefni ársins. Til skamms tíma væri fjárhagslegur styrkur forgangsatriði, jafnvel á kostnað arðsemi.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, fór yfir ársreikning síðastliðins starfsárs. Í máli hans kom fram að afkoma ársins 2010 hafi verið góð og í samræmi við áætlanir. Höskuldur lagði áherslu á að grunnrekstur Arion banka hafi styrkst á árinu og að bankinn sé vel í stakk búinn til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru.

Höskuldur fór yfir helstu atburði ársins 2010. Hann nefndi að á árinu hafi rík áhersla verið lögð á endurskipulagningu lánabókar bankans, og þar með skuldamál viðskiptavina bankans, og eins hafi markvisst verið unnið að sölu yfirtekinna félaga. Á árinu 2010 hafi stefna Arion banka til framtíðar verið mörkuð og að búið væri að aðlaga skipulag bankans að nýrri stefnu.

Afkoma Arion banka á árinu nam 12,6 milljörðum króna eftir skatta og arðsemi eigin fjár var 13,4%. Heildareignir bankans námu 813 milljörðum króna í árslok 2010. Jafnframt stenst bankinn öll skilyrði FME um eiginfjár- og lausafjárhlutföll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×