Viðskipti innlent

Óvíst hvaða skatt á að greiða af ofurtekjunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að ekki hafi verið tekin afstaða um það hvort um sé að ræða verktakagreiðslur eða laun.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að ekki hafi verið tekin afstaða um það hvort um sé að ræða verktakagreiðslur eða laun.
Ríkisskattstjóri hefur ekki tekið afstöðu til þess ennþá hvernig standa skuli skil á skattgreiðslum af tekjum nefndamanna í skilanefndum og slitastjórnum bankanna.

Nefndamenn í skilanefndum og slitastjórnum bankanna fengu greiddar tugmilljónatekjur á síðasta ári. Kjörin eru langt umfram það sem meðallaunamenn fá. Ekkert liggur þó fyriir um hvort reikna eigi tekjurnar sem verktakagreiðslur eða laun. „Að minnsta kosti ekki á þessu stigi, þá verður ekkert gefið upp um það opinberlega hvort svo sé," segir Skúli Eggert í samtali við Vísi. Aðspurður hvort embættið sé að skoða þessi máli segist Skúli ekkert vilja tjá sig um það.

Engu að síður er tilfellið svo að nefndarnenn í skilanefndum Kaupþings, gamla Landsbankans og Glitnis fá greidd verktakalaun, en eru ekki launþegar hjá nefndunum. Þetta hefur töluverð áhrif á það hvernig tekjurnar eru skattlagðar. Til að mynda greiða nefndarmennirnir ekki útvar af verktakagreiðslunum, en greiða hins vegar virðisaukaskatt af þeirri upphæð. Þá greiða þeir ekki tekjuskatt einstaklinga af heildarsummunni heldur fjármagnstekjuskatt, eða tekjuskatt fyrirtækja, eftir því hvaða rekstrarform er á félaginu sem tekjurnar eru greiddar inn í.

Ríkisskattstjóri segir að viðmiðunarreglur embættisins geri ráð fyrir að þeir sem sitji í skilnefndum eða slitastjórnum beri að reikna sér tiltekna fjárhæð í laun sem sé 1500 þúsund á mánuði. „Mismunurinn er svo skattlagður sem rekstrarhagnaður," segir Skúli Eggert Þórðarson.




Tengdar fréttir

Landsbankamenn líka með milljónir í tekjur

Tekjur nefndamanna í skilanefnd og slitastjórn Landsbankans námu á síðasta ári alls 386 milljónum króna, samkvæmt ársreikningi gamla Landsbankans sem birtur var í byrjun mars.

Meðalárslaun um 70 milljónir

Skilanefnd og slitastjórn Glitnis þáðu 348 milljónir króna í laun á síðasta ári, samkvæmt ársuppgjöri Glitnis sem birtur var í morgun.

Árni Páll: Enginn ber í raun ábyrgð á starfi skilanefndanna

Slitastjórn og skilanefnd Glitnis voru með að meðaltali um 6 milljónir í mánaðarlaun á síðasta ári samkvæmt ársreikningi Glitnis. Viðskiptaráðherra segir frumvarp um eftirlit með skilastjórn og skilanefnd sé í undirbúningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×