Viðskipti innlent

Árni Páll: Enginn ber í raun ábyrgð á starfi skilanefndanna

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Slitastjórn og skilanefnd Glitnis voru með að meðaltali um 6 milljónir í mánaðarlaun á síðasta ári samkvæmt ársreikningi Glitnis. Viðskiptaráðherra segir frumvarp um eftirlit með skilastjórn og skilanefnd sé í undirbúningi.

Samkvæmt uppgjöri Glitnis sem kynnt var í gær fyrir árið 2010 fengu skilanefnd og slitastjórn Glitnis greiddar 348 milljónir króna í árslaun. Launin skiptast niður þrennt í skilanefndarmenn Glitnis og tvennt í slitastjórn. Meðallaun þessa fólks eru því 70 milljónir króna á ári eða tæpar 6 milljónir á mánuði. Til samanburðar er forsætisráðherra með rúma milljón á mánuði.

Þar að auki ákvað skilanefndin og slitastjórnin í upphafi þessa árs að hækka verð fyrir hvern útseldann tíma þannig að laun skilanefndarmanna eru nú enn hærri en þessar tölur frá árinu 2010 gefa til kynna.

Efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, segir þessar tölur mjög háar. Tryggja verði að skilanefndir heyri í framtíðinni undir einhverskonar eftirlit.

„það er í reynd enginn sem ber ábyrgð á rekstri þeirra og getur haft með hana að gera. Enginn hefur gott af því að starfa ábyrgðarlaust," segir Árni Páll.

Hann segir nauðsynlegt að vinda ofan af því formi sem skilanefndirnar starfa við í dag. Ráðuneytið sé að vinna frumvarp sem eigi að koma skilanefndum undir eftirlit kröfuhafa, skilgreina starfsvettvang þeirra og greiða fyrir að þær verði leystar upp.

„Það er engum til góðs að búa til eilífðarvélar sem skapa tækifæri á að menn geti skammtað sér laun og aðstöðu tímunum og árunum saman," segir Árni Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×