Innlent

Stjórnlagaráð tilraun til þess að víkja sér undan dómi Hæstaréttar

Birgir Ármannsson
Birgir Ármannsson
„Skipun einhvers konar stjórnlagaráðs, með þeim einstaklingum sem fengu á sínum tíma útgefin kjörbréf í kjölfar hinna ógildu kosninga í nóvember, væri augljóslega tilraun til að víkja sér undan niðurstöðu Hæstaréttar og því ekki tæk leið í stöðunni," segir Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi flokksins í samráðsnefnd um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings.

Birgir lagði fram bókun í nefndinni þar sem fram kom að Sjálfstæðisflokkurinn teldi brýnt að endurskoða stjórnarskrána og styður slíka endurskoðun. Samkvæmt gildandi stjórnarskrá er Alþingi stjórnlagaþing og getur eitt breytt stjórnarskrá og má ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð, enda ekki ástæða til, segir í bókuninni.

Svo segir í bókuninni:

„Eftir það klúður við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings skv. l. 90/2010, sem leiddi til ógildingar kosninganna í Hæstarétti, telur undirritaður fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að ekki eigi að halda áfram með hugmyndir um ráðgefandi stjórnlagaþing með tilheyrandi kostnaði og leggur til að haldið verði áfram starfi stjórnlaganefndar, þ.e. að safna gögnum um stjórnarskrármál og setja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá og útfærslu þeirra. Jafnframt hvetur undirritaður til þess að frekari undirbúningur að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði styrktur með almennri umræðu í samfélaginu og rannsóknum á stjórnarskrármálum, um leið og leitað verði ráðgjafar innlendra og erlendra sérfræðinga. Sú vinna verði á forræði Alþingis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×