Skoðun

Ekki benda á mig!

Friðjón Einarsson skrifar

Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar leggja metnað sinn í að vinna að bættum hag íbúa bæjarfélagsins og það þýðir að á stundum verða menn að gagnrýna starfshætti meirihlutans. Lesendum er vonandi ljóst að margt hefur misfarist við stjórnun bæjarins á undanförnum árum.

Bærinn er jú fallegri, sumar göturnar betri en áður og grasið grænna, en það breytir ekki þeirri staðreynd að Reykjanesbær og dótturfyrirtæki hans eru flest öll í svo alvarlegri stöðu að ekkert má út af bera.

Nú er ljóst að bæjarbúar þurfa að borga kostnaðinn af óráðsíu meirihlutans en niðurskurður er fyrirhugaður á öllum sviðum bæjarins annað árið í röð. Skuldir hafa fimmfaldast á átta árum hjá bæjarsjóði, úr rúmlega 5 milljörðum í um 30 milljarða.

Ég nefni þetta hér vegna skrifa bæjarstjórans og forystumanns sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, Árna Sigfússonar, í Fréttablaðinu nýverið, en þar kvartar hann yfir gagnrýni minnihlutans og einelti fjölmiðla. Ekki síst kvartar hann yfir viðmiðunum sem Eftirlitsnefnd sveitarfélaga hefur haft um tengsl skulda og tekna sveitar­félaga.

Þessi viðbrögð koma ekki á óvart. Undanfarin ár hafa allir þeir sem hafa gagnrýnt starfshætti meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ verið dæmdir neikvæðir og á móti atvinnuuppbyggingu.

Vegsemd fylgir vegferð hverri. Sjálfstæðismenn hafa ekki sýnt ábyrgð í útgjöldum á undanförnum árum og kenna ætíð öðrum um, nú stjórnvöldum og fjölmiðlum.

En - laun hafa verið skert, starfshlutföll minnkuð, sjóðir hafa tæmst og tekjur duga ekki lengur fyrir útgjöldum. Víkingaheimar eru gjaldþrota, Hljómahöllin fokheld og tóm og Reykjaneshöfn hangir á bjargbrúninni. Þessi niðurstaða þarf ekki að koma neinum á óvart þar sem hefðbundinn rekstur hefur verið neikvæður í mörg ár.

Samfylkingin hefur lengi verið gagnrýnin á vinnubrögð Sjálfstæðis­flokksins í Reykjanesbæ og þörf hans til að deila og drottna yfir samfélaginu.

Ég er sammála bæjarstjóranum um að áskanir búa ekki til störf en gagnrýnin umræða er nauðsynleg til að lagfæra það sem misfarist hefur á undanförnum árum til að byggja upp til framtíðar.

Samfylkingin styður öll góð atvinnuverkefni hér í bæ en vill gæta varúðar í rekstri og skuldbindingum bæjarsjóðs. Við viljum sýna ábyrg vinnubrögð sem þola alla skoðun og þannig og aðeins þannig lærum við að endurtaka ekki mistök fortíðar hér í bæ.










Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×