Viðskipti innlent

Matsfyrirtækjunum send jákvæð skilaboð

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson. Mynd/GVA
Ríkissjóður býðst til að greiða niður erlendar skuldir um allt að 130 milljarða króna á næstu vikum. Það gæti sparað ríkinu vaxtakostnað eða sent matsfyrirtækjum jákvæð skilaboð að mati seðlabankastjóra.

Seðlabanki Íslands bauðst í dag til að kaupa skuldabréf ríkissjóðs í erlendri mynt með gjalddaga á næstu tveimur árum á nafnvirði. Með öðrum orðum býðst ríkissjóður þannig til að greiða niður skuldir sínar nú þegar, ef eigendur þessara skuldabréfa vilja ekki halda þeim fram að gjalddaga. Alls er útistandandi upphæð skuldabréfanna um 130 milljarðar króna.

Að sögn Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, verður gjaldeyrisforði bankans notaður í þessu skyni, en forðinn er í sögulegu hámarki og er að miklu leyti fjármagnaður með lánum sem bera lægri vexti en skuldirnar sem til stendur að greiða niður. Markmiðið sé þó ekki endilega að greiða lánin niður að miklu leyti, en Már telur tilboðið sterkan leik í sjálfu sér.

„Hann getur nýst hvort sem það verður lítil eða mikil þátttaka. Ef það er lítil þátttaka þá eru það skilaboð frá þeim sem eiga þessa pappíra að þeir treysta því alveg fullkomlega að ríkissjóður muni standa í skilum og það er eitthvað sem lánshæfismatsfyrirtækin sjá. Ef það er mikil þátttaka þá spörum við töluverða vexti og af þessu gæti orðið töluverður hagnaður."

Már segir þetta ekki beinlíns gert til að ganga í augun á matsfyrirtækjunum. „Nei, eiginlega ekki. Við vorum í rauninni búin að ákveða að gera þetta fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna."


Tengdar fréttir

Seðlabankinn vill greiða upp skuldir

Seðlabanki Íslands, fyrir hönd ríkissjóðs, býðst til að kaupa á nafnverði, að hluta eða í heild, þau erlendu skuldabréf ríkissjóðs sem falla í gjalddaga árin 2011 og 2012. Um er að ræða tvö skuldabréf í evrum sem upphaflega voru að fjárhæð 1.250 milljónir evra, eða um 204 milljarðar króna að nafnvirði. Seðlabankinn hefur þegar keypt hluta þessara bréfa á markaði, en enn eru um 800 milljónir evra (130 ma.kr.) útistandandi. Þessi kaup eru þáttur í lausafjár- og skuldastýringu ríkisjóðs, en einnig liður í gjaldeyrisforðastýringu Seðlabanka Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×