Viðskipti innlent

Seðlabankinn vill greiða upp skuldir

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Seðlabanki Íslands, fyrir hönd ríkissjóðs, býðst til að kaupa á nafnverði, að hluta eða í heild, þau erlendu skuldabréf ríkissjóðs sem falla í gjalddaga árin 2011 og 2012. Um er að ræða tvö skuldabréf í evrum sem upphaflega voru að fjárhæð 1.250 milljónir evra, eða um 204 milljarðar króna að nafnvirði. Seðlabankinn hefur þegar keypt hluta þessara bréfa á markaði, en enn eru um 800 milljónir evra (130 ma.kr.) útistandandi. Þessi kaup eru þáttur í lausafjár- og skuldastýringu ríkisjóðs, en einnig liður í gjaldeyrisforðastýringu Seðlabanka Íslands.

Í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum kemur fram að gjaldeyrisforði Seðlabankans hafi numið 767 milljörðum krónaí lok mars 2011. Seðlabankinn og ríkissjóður séu því í góðri stöðu til að greiða þau erlendu lán sem falla í gjalddaga samkvæmt lánasamningum á næstu árum, þar á meðal þau skuldabréf sem hér um ræði. Endurkaupin skapi einnig tækifæri til að bæta ávöxtun gjaldeyrisforðans í núverandi lágvaxtaumhverfi.

„Að auki er höfð hliðsjón af nýlegum tilkynningum frá lánshæfismatsfyrirtækjum og gefur tilboðið eigendum verðbréfanna færi á að selja þau á nafnverði með skipulögðum hætti ef þeir svo kjósa. Útboðið getur einnig gefið ríkissjóði upplýsingar um afstöðu erlendra fjárfesta gagnvart Íslandi í því ástandi sem nú er uppi sem einkennist annars vegar af verulega bættri stöðu efnahagsmála og hins vegar af óvissum horfum varðandi lánshæfismat ríkissjóðs í kjölfar þess að Icesave-samkomulaginu var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu," segir í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Tilboðið stendur til 5. maí næstkomandi og verður niðurstaða þess kynnt opinberlega daginn eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×