Innlent

Hefðu hugsanlega átt að upplýsa fleiri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svein Harald Oygard var seðlabankastjóri þegar að álitið var unnið. Mynd/ Anton.
Svein Harald Oygard var seðlabankastjóri þegar að álitið var unnið. Mynd/ Anton.
Seðlabanki Íslands telur að hann hefði hugsanlega átt að upplýsa forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið um lögfræðiálit sem lögmannsstofan Lex vann fyrir bankann í fyrrasumar og laut að gengistryggingu lána. Þetta kemur fram í svari sem Seðlabankinn sendi til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í morgun.

Bankinn segir að það sé jafnan nokkuð álitaefni hvernig fara skuli með upplýsingar sem opinberar stofnanir hafi undir höndum. „Það kemur oft ekki í ljós fyrr en eftir nokkurn tíma hver raunveruleg þýðing þeirra er. Í ljósi þess að nú virðist hugsanlegt að áhrif hæstaréttardómsins um ólögmæt gengistryggingarákvði skuldbindinga í íslenskum krónum gætu orðið meiri en upphaflega var talið, mætti e.t.v. draga þá ályktun að heppilegra hefði verið að upplýsingar um niðurstöðu fyrrnefnds álits hefðu fengið víðtækari dreifingu í stjórnkerfinu en raun varð á. T.d. kynni að hafa verið eðlilegt að koma efni þess á framfæri við Fjármálaeftirltið með beinum hætti, og einnig fjármálaráðueytið og forsætisráðuneytið, sem á þeim tíma fór með efnahagsmál. Þetta eru hins vegar ályktanir sem draga má á grundvelli upplýsinga sem nú liggja fyrir, en voru ekki eins augljósar þegar umrætt minnisblað kom fram," segir í svarinu.

Í svarinu, sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri undirrita, segir að álit Lex hafi lotið að lögum um vexti og verðtryggingu, sem heyri undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið, en einnig um reglur um gjaldeyrismál sem settar séu með samþykki efnahags- og viðskiptaráðherra.

Vísir bauð Svein Harald Oygard, sem var seðlabankastjóri á þeim tíma þegar álitið var unnið fyrir Seðlabankann, að tjá sig um málið. Hann sagði, í tölvupósti til Vísis, að hann hefði tekið þátt í að undirbúa svar Seðlabankans til forsætisráðherra og vildi ekki tjá sig frekar um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×