Skoðun

Agúrkumaðurinn mætir

Andrés Pétursson formaður Evrópusamtakanna skrifar
Hún er þrautseig goðsögnin um reglugerðarbáknið í Brussel. Dæmi um þetta bull er að íslensk ungmenni verði send í evrópskan her, Íslendingar muni missa allar auðlindir sínar og að íslenskur landbúnaður verði lagður í rúst ef við göngum í Evrópusambandið. Einn af helstu boðberum slíkra sögusagna er breski Evrópuþingmaðurinn Daniel Hannan. Honum hefur verið mikið hampað af Nei-hreyfingunni á Íslandi og hefur nokkrum sinnum komið hingað til lands til að boða fagnaðarerindið.

Fyrir nokkrum misserum taldi Hannan sig hafa himin höndum tekið þegar hann rakst á reglugerð ESB frá árinu 1988 sem fjallaði um agúrkur. Hannan henti þessu á loft og birtu Nei-sinnar á Íslandi mikla frásögn af þessu hræðilega miðstýringarapparati í Brussel. Það er ekki nýtt að reglugerðir Evrópusambandsins - sem vel að merkja miða flestar að því að afnema viðskiptahindranir og koma á sameiginlegum markaði Evrópu - verði skotmark einangrunarsinna. Frægustu dæmin eru reglur um viðskipti með agúrkur og banana. Sú fyrri var sett árið 1988 og sú seinni árið 1994. Þessar reglugerðir voru settar að beiðni neytenda og framleiðenda, en ekki embættismanna í Brussel. Tilgangurinn var að auðvelda viðskipti á milli landa og komu í stað 15 mismunandi reglna í aðildarlöndum ESB. Í þessum reglum er kveðið á um ákveðna gæðaflokkun afurðanna þannig að kaupendur, bæði innanlands og utan, geti gengið að því vísu að verið sé að kaupa fyrsta flokks vöru. Ekkert í reglugerðunum bannar framleiðendum hins vegar að framleiða eins bogna banana eða agúrkur og þeir vilja. Sú vara kemst hins vegar ekki í hæsta gæðaflokk. Reglur innri markaðar Evrópusambandsins eru eins og þeir staðlar sem þegar eru fyrir hendi hjá Staðlasamtökum Evrópu (CEN) og Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).

Þessar staðreyndir henta hins vegar ekki mönnum eins og Hannan. Hann passar sig á því að minnast ekki á að ESB hefur til dæmis sett reglur sem auka rétt flugfarþega á endurgreiðslu frá flugfélögum, sett reglur sem hafa knúið fram aukna samkeppni á fjarskiptamarkaði í Evrópu og þannig lækkað verð til almennings, opnað á rétt launafólks til að vinna hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins og sett reglur sem gera ríkisstjórnum landa Evrópu mögulegt að vinna náið saman gegn gróðurhúsaáhrifum. Þessar staðreyndir henta ekki lífsýn manna eins og Hannan og því grípa þeir til ráða að mistúlka og skrumskæla lög og reglur sem auka á réttindi almennings í Evrópu.






Skoðun

Sjá meira


×