Handbolti

Kasper Hvidt: Erum í góðri stöðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar

Kasper Hvidt segir að minni pressa sé á danska landsliðinu fyrir leikinn gegn Íslandi í kvöld en í hinum leikjum liðsins í riðlinum.

Danir hafa unnið báða leiki sína til þessa og eru öruggir inn í milliriðlakeppnina með tvö stig.

„Við komum hingað til að ná tveimur stigum fyrir milliriðlakeppnina og nú höfum við náð því markmiði,“ sagði Hvidt í samtali við Vísí í gær.

„Vonandi verðum við því afslappaðir í leiknum og spilum vel.“

Danir geta þó með sigri farið með fullt hús stiga í milliriðlakeppnina og það vilja Danir auðvitað gera.

„Það væri auðvitað frábært að fara í milliriðlakeppnina með fjögur stig. En fyrir tveimur árum þegar við urðum Evrópumeistarar fórum við aðeins með tvö stig í milliriðlakeppnina. Samt komumst við í undanúrslitin.“

„Við vitum að Ísland er með frábært lið og á síðustu árum hafa leikir okkar við Ísland verið mjög spennandi. Þetta verður því erfiður og mjög jafn leikur sem mun ekki ráðast fyrir en á lokamínútunum.“

Vonbrigði íslensku leikmannanna eftir jafnteflið við Austurríki á fimmtudagskvöld voru mikil enda missti Ísland niður þriggja marka forskot á síðustu 50 sekúndum leiksins.

„Við sáum ekki lokamínútur leiksins þar sem við vorum að hita upp annars staðar. Við heyrðum þó í kallkerfinu að Ísland væri þremur mörkum yfir og lítið eftir. Svo komum við inn í sal þegar leikurinn var búinn og það var jafnt. Við ætluðum ekki að trúa því.“

„En þetta var gríðarlega mikil óheppni og svona lagað á ekki að geta gerst.“

„Þetta ætti þó ekki að skipta neinu máli fyrir Ísland,“ sagði Hvidt. „Ef Serbía vinnur Austurríki þá mun þetta engu máli skipta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×