Lífið

Biggi í Maus skrifar poppsögu Páls Óskars

Biggi í Maus vinnur að poppbók um Pál Óskar, einn allra vinsælasta tónlistarmann Íslandssögunnar. Palli segir bókina vera fulla af djúsí sögum ásamt því að virka sem kennslubók um bransann fyrir áhugamenn og tónlistarfólk.
Biggi í Maus vinnur að poppbók um Pál Óskar, einn allra vinsælasta tónlistarmann Íslandssögunnar. Palli segir bókina vera fulla af djúsí sögum ásamt því að virka sem kennslubók um bransann fyrir áhugamenn og tónlistarfólk. Mynd/GVA

„Þetta er farið að líta mjög skemmtilega út og gæti orðið ágætiskennslubók fyrir poppara og áhugafólk um tónlist," segir poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson.

Páll Óskar hefur ráðið Birgi Örn Steinarsson, Bigga í Maus, til að skrifa poppsögu sína. Í bókinni verður farið í sögurnar á bakvið plöturnar og lögin. Þá verða tæmandi listar yfir plötur, smáskífur, tónleika og flest annað sem tengist tónlistarferli Páls, en hann gaf út fyrstu sólóplötuna, Seif, árið 1993.

DV greindi frá því á dögunum að Biggi væri að skrifa ævisögu Páls Óskars, en því vísar hann til föðurhúsanna.

„Ég er ekki að fara að skrifa ævisögu mína - allavega ekki núna," segir Páll Óskar ákveðinn. „Ég vil skrifa ævisögu mína sjálfur, eftir sextugt, eða sjötugt. Ég veit ekki hvaða lærdóm á að draga af ævi minni núna, af því að hún er ekki liðin - ég er enn þá á fullu að lifa hana. Það er allt of snemmt að skrifa ævisögu núna."

Páll Óskar segir að bókin varpi ljósi á hvað gekk á þegar popptónlist var unnin við íslenskar aðstæður, áður en netsala tók við af geisladisknum.

„Það er líf í bókinni. Hún er skrautleg og það er fullt af djúsí poppsögum sem eru þegar byrjaðar að poppa upp," segir hann. „Við erum að reyna að gera bókina eins ýtarlega og hægt er."

Þú hefur gert plötur á bæði réttan og rangan hátt… „Já, það er það sem fólk lærir vonandi af - bæði af því sem gekk vel hjá mér og því sem floppaði."

Þessi tegund bóka er vel þekkt og sjálfur á Páll Óskar svipaðar bækur um David Bowie, Burt Bacharach og Bítlana.

Óvíst er hvenær bókin kemur út, en Páll Óskar segir að kapp verði lagt á að klára bókina í tæka tíð svo hægt verði að gefa hana út í ár. Hann leggur þó áherslu á að hún komi ekki út fyrr en hann finnur að hún sé 100 prósent tilbúin. „Við þurfum að vera ógeðslega duglegir ef við ætlum að gefa út í ár. Það er möguleiki, en það fer allt eftir hvernig bókin vinnst," segir Páll.

„En ég vil ekki skila af mér hálfbakaðri köku. Þá er betra að hinkra aðeins."

atlifannar@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.