Skoðun

Ný Bóla

Sverrir Björnsson skrifar
„Er það vilji andskotans umboðslaun eða gróði" að fjármagnseigendum sé bætur skaðinn af bankahruninu en þeir sem ekkert áttu nema skuldir og strit beri kostnaðinn á sínum herðum um ókomin ár?

Sagan hefur lag á að endurtaka sig og meginstef sögunnar er að þeir sem verst eru settir í samfélaginu bera byrðarnar af mistökum stjórnvalda og græðgi eignavaldsins.

„Ríkur búri ef einhver er,

illa máske þveginn,

höfðingjar við síðu sér

setja hann hægra megin.

Fátækur með föla kinn

Fær það eftirlæti,

á hlið við einhvern hlandkoppinn

honum er ætlað sæti." HJ

Langlundargeð alþýðu þessa lands er með ólíkindum, þegjandi hefur hún um aldir axlað byrðar af mistökum valdamanna. Einn er þó maður sem óhræddur bauð stjórnvöldum birginn og barðist gegn óréttlætinu með beittu sverði sínu; skáldagáfunni.

Hjálmar Jónsson, kenndur við Bólu í Skagafirði, bjó alla tíð við kröpp kjör og fjandsamleg yfirvöld. Hjálmar tók misréttinu ekki þegjandi heldur orti magnaðar vísur sem enn lifa með þjóðinni. Mergjað alþýðuskáld sem gaf hinum kúguðu rödd. Hvöss gagnrýni Hjálmars á auðsöfnun og sérgæsku á erindi við okkur í dag sem og gagnrýni á andvaraleysið og græðgisvæðinguna.

„Sálarskip mitt fer hallt á hlið

og hrekur til skaðsemdanna,

af því það gangur illa við

andviðri freistinganna." HJ

En hver er minningin um þetta alþýðuskáld örþjóðar, okkar Hróa hött og Spartakus?

Styttur af hagmæltum ráðherrum og athafnaskáldum eru dreifðar um allar koppagrundir og styttum af skáldum velþóknanlegum yfirvöldum er hrúgað upp. En að Bólu í Blönduhlíð bælir nálituð sinan sig, slegin niður af rigningunni, bæld af þunga vetrarins. Minning skáldsins lítill minnisvarði, ísblá fjöllin og næðingurinn með hlíðinni örstutt frá þjóðbraut landsins.

Það er sorgleg þjóð sem ekki þekkir sögu sína og saga alþýðufólks á Íslandi er að mestu óskrifuð. Talið er að frá upphafi landnáms hafi tvær milljónir Íslendinga dregið lífsandann en af einni milljón fer engum sögum. Hún er horfin í myrkur tímans. Mér segir svo hugur um að týnda þjóðin sé einmitt eignalausa fólkið sem nú axlar þögult byrðarnar, skattahækkanir og niðurskurðinn. Fólkið sem ekkert átti annað en skuldir og erfir fleiri og meiri skuldir frá útrásarvíkingum og vanhæfum stjórnvöldum. Fólkið sem áður fyrr var bundið í þrælahöft höfðingjanna; vistarbandið, sem gerði hvern mann að þræl jarðeigenda. Fólk sem engin vopn hafði til að verja sig en í menningu þess lifðu vísur og kviðlingar sem réttu hlut þeirra og gerðu lífið bærilegra.

Dr. Kristján Eldjárn skrifaði um Bólu Hjálmar:

„Veraldarsaga Hjálmars Jónssonar er í einu orði sagt saga hins snauða íslenska kotbónda fyrri alda. Hún er öreigasaga frá upphafi til enda. Lífsbarátta hans var eins og sú sem þúsundir hans líka háðu um landið allt, ævilangt návígi við fátækt og skort."

Það er löngu kominn tími til að minningu alþýðufólks fyrri alda sé meiri sómi sýndur. Ekki hefur stundin til þess verið betri en einmitt núna þegar höfðingjavaldið hefur steypt þjóðinni á hausinn og alþýðan þarf sem fyrr að taka afleiðingunum „óláns hrekst í stríðan straum og steyti á smánarbergi".

Bóla í Skagafirði er tilvalinn staður fyrir ljóða- og lífstílssafn um lífsbaráttu fátæks fólks á fyrri öldum. Staðurinn er sögufrægur og í alfaraleið. Þeir sem málið er skylt ættu að taka til hendinni og heiðra minningu þessa merkilega manns og þessa merkilega fólks með því að reisa ljóða- og lífstílssafn alþýðu fólks á fyrri tíð að Bólu. Alþýðusambandi Íslands, Menntamálaráðuneytinu, Þjóðminjasafninu og afkomendum Bólu Hjálmars ætti að renna blóðið til skyldunnar og taka frumkvæði í málinu. Fyrsta skrefið gæti verið að efna til samkeppni meðal arkitekta um hönnun upplifunarsafns að Bólu. Vel hönnuðu safni þar sem við getum skynjað og skoðað hvernig kjör alþýðufólks voru á hörðustu öldum Íslandsögunnar.

Fundið á eigin skinni kuldann, gengið um vistarverurnar, fundið lyktina, séð ljósið af kolatýrunni, snert förtin, smakkað matinn og heyrt hugsanir þess í rímunum. Lesið og séð stuttar ævisögur barna, kvenna og manna. Og þegar við stígum út í sólglitrandi víðáttu Skagafjarðar verður í brjósti okkar lítill glampi af lífi forfeðranna; hörkunni, voninni og stærðinni í smæðinni.






Skoðun

Sjá meira


×