Erlent

Prestar og nunnur undir grun

Benedikt XVI. páfi baðst á laugardag afsökunar á kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar á Írlandi.
Benedikt XVI. páfi baðst á laugardag afsökunar á kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar á Írlandi.

Fjórir prestar og tvær nunnur í biskupsdæminu í Regensburg í Þýskalandi sæta rannsókn vegna gruns um kynferðisofbeldi. Biskupsdæmið hóf rannsóknina í byrjun mánaðarins eftir að rúmlega 300 fyrrverandi nemendur tilkynntu að þeir hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi í Regensburg.

„Rannsókn undanfarinna tveggja vikna hefur leitt í ljós alvarleg afbrot af hálfu kirkjunnar þjóna," sagði talsmaður biskupsdæmisins á blaðamannafundi í gær.

Flestir meintir brotaþolar gengu í grunnskólann í Ettterzhausen, skammt frá Regensburg. Dómkirkjan í Regensburg sótti kórdrengi aðallega í þann skóla. Georg Ratzinger, bróðir Benedikts XVI., var kórstjóri þar í þrjá áratugi. Hann hefur beðist afsökunar á að hafa ekki sinnt ásökunum um líkamlegt ofbeldi í skólanum en kveðst ekki hafa heyrt ásakanir um kynferðislegt ofbeldi.

Benedikt XVI. páfi baðst á laugardag afsökunar á kynferðisbrotum innan kaþólsku kirkjunnar á Írlandi. Hann minntist hins vegar ekki á önnur lönd. Hundruð fyrrverandi nemenda í kaþólskum skólum í Sviss, Hollandi og á Ítalíu hafa á liðnum vikum tilkynnt að hafa verið beitt kynferðisofbeldi.- bs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×