Skoðun

Háskóli Íslands - stærsta nýsköpunarsetur landsins

Ágúst Hjörtur Ingþórsson skrifar

Í dag verða Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands afhent við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi - á árlegri nýsköpunarmessu skólans. Þrjú verkefni hljóta viðurkenningu og styrk sem sem vonandi hvetur aðstandendur þeirra til að halda áfram á braut nýsköpunar og hagnýtingar.

Undanfari þessara verðlaunaveitingar er samkeppni meðal starfsmanna og nemenda skólans þar sem kallað er eftir verkefnum sem byggja á rannsóknum og þróunarstarfi innan skólans sem hægt væri að hagnýta. Þetta er í tólfta skiptið sem Rannsóknaþjónusta Háskóla Íslands stendur fyrir þessari samkeppni í samstarfi við Tæknigarð, Einkaleyfastofu og Árnason-Faktor. Á þessum tíma hafa vel á annað hundrað hugmyndir komið fram og þrjátíu og sex þeirra hlotið viðurkenningu.

Ekki er víst að fólk geri sér almennt grein fyrir því umfangsmikla nýsköpunar- og frumkvöðlasarfi sem unnið er á vettvangi Háskóla Íslands. Til viðbótar við allar þær hugmyndir sem hafa komið fram í formlegri samkeppni er á hverju degi unnið að rannsókna- og þróunarverkefnum í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir um allt land. Með sjálfstæðum rannsóknum og þátttöku í margvíslegum samstarfsverkefnum er Háskóli Íslands í lifandi samstarfi við samfélagið allt. Rétt að vekja athygli á nokkrum dæmum til að styðja þessar fullyrðingar.

Þróun á tækjum sem nýtast í rannsóknum, t.a.m. við sjúkdómsgreiningar og lækningar er stór svið þar sem mikið er að gerast. Þar má nefna tæki til að mæla súrefnismagn í augnbotnum sem notað er til sjúkdómsgreininga og rannsókna og er alveg sérstaklega til að greina sykursýki fyrr en hægt er með öðrum tækjum. Einnig nýja aðferð og tæki til erfðarannsókna sem finnur frávik í genasamsetningu með mun fjótlegri hætti en nú er hægt. Bæði þessi tæki eru nú til í frumgerðum og stutt er í markaðssetningu.

Annað rannsóknartækni sem verður kynnt á nýsköpunarmessunni er kafbáturinn Gavia sem fyrirtækið Hafmynd hefur verið að þróa í fjölda ára en það er ætlað til rannsókna í undirdjúpunum. Um hefur verið að ræða mjög flókið þróunarverkefni sem tók langan tíma, en nýlega var fyrirtækið selt til erlendra aðila sem er til marks um að nú er fyrirtækið komið á vaxtarskeið.

Dæmi um allt annarskonar tæki er hugbunaður sem settur er í farsíma og breytir honum í gítarstilli. Þetta verkefni kom út úr lokaverkefni í tölvunarfræði en eftir að stofnað var um þetta sprotafyrirtæki sem þróaði hugmyndina áfram hefur nú náð þeim árangri að hugbúnaðurinn er seldur í Nokia búðinni þar sem mikill fjöldi manna um allan heim hefur keypt þessa snjölllu uppfinningu. Nýsköpun er ekki bara tæki og tól - hún er ekki síður mikilvæg í opinberum rekstri og margvíslegi þjónustu sem hægt er að bæta og gera skilvikari. Gott dæmi um nýsköpunarverkefni á því sviði er aðferðafræði og próf sem notað er til að skima eftir þunglyndi hjá unglingum mjög snemma þannig að hægt sé að grípa inn í og hjálpa þeim áður en sjúkdómurinn nær sér á strik og fer að hafa neikvæð áhrif á nám og líf unga fólksins sem er okkar mikilvægast auður. Þetta skimunarkerfi er nú í notkun í mörgum grunnskólum og hefur skilað góðum árangri þannig að sífellt fjölgar þeim skólum sem nýta þessa nýsköpunarafurð sem á rætur að rekja til rannsókna- og þróunarstarfa við Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahús.

Af framangreindu má ráða að nýsköpunarstarf innan Háskóla Íslands er í miklum blóma. Þegar litið er til fjölda nemenda og starfsmanna við Háskóla Íslands og þann mikla fjölda fyrirtækja og stofnana sem skólinn tengist með beinum hætti er óhætt að fullyrða að hann er stærsta nýsköpunarsetur Íslands. Allt áhugafólk um nýsköpun er velkomið á nýsköpunarmessuna kl. 16.00 í dag.






Skoðun

Sjá meira


×