Erlent

Biden bjartsýnn á viðræður

Joe Biden Varaforseti Bandaríkjanna á göngu um grafreit í Jerúsalem. nordicphotos/AFP
Joe Biden Varaforseti Bandaríkjanna á göngu um grafreit í Jerúsalem. nordicphotos/AFP
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í gær að nú væri komið tækifæri fyrir Ísraela og Palestínumenn að semja um frið. Hann hafði þó ekki fyrr sleppt orðinu en ísraelsk stjórnvöld samþykktu að reistar verði 500 íbúðir í Austur-Jerúsalem, þvert ofan í andstöðu Palestínumanna.

Palestínumenn gera kröfu til þess að austurhluti Jerúsalemborgar verði höfuðborg sjálfstæðrar Palestínu. Allar byggingaframkvæmdir Ísraela þar eru til þess fallnar að torvelda samninga um slíkt.

Biden hélt á mánudag til Ísraels, hitti þar Shimon Peres forseta og Benjamin Netanjahú forsætisráðherra í gær. Hann ætlar einnig að hitta Mahmoud Abbas, forseta Palestínustjórnar, áður en hann heldur heim á ný á morgun.

Friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna hafa legið niðri í fjórtán mánuði, en þær hefjast nú á ný með milligöngu Bandaríkjamanna án þess þó að fulltrúar deiluaðilanna hittist.

Viðræður Bidens við ísraelska ráðamenn snerust þó að stórum hluta um Íran, en Ísraelar hafa miklar áhyggjur af hugsanlegum kjarnorkuáformum Írana. Á fundi sínum með Netanjahú fullvissaði Biden Ísraela um að Bandaríkjamenn myndu aldrei leyfa Írönum að koma sér upp kjarnorkuvopnum.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×