Erlent

Seljið þið eyjarnar þið gjaldþrota Grikkir

Óli Tynes skrifar

Tveir háttsettir þýskir stjórnmálamenn vilja að Grikkir selji eyjar sínar til þess að koma fjárhag landsins á réttan kjöl.

Grísku eyjarnar eru um 6000 talsins en aðeins 227 þeirra eru í byggð.

Þeir Josef Schlarmann og Frank Schaeffler sögðu í viðtali við þýska dagblaðið Bild að þeir sem væru á leið í gjaldþrot ættu að selja allar eigur sínar til þess að borga lánardrottnum sínum.

Schlarmann er háttsettur í Kristilega Demokrataflokki Angelu Merkel kanslara og Schaeffler er þingmaður Frjálsra demokrata sem er minni flokkurinn í samsteypustjórninni.

Tvímenningarnir tala þarna líklega fyrir meirihluta þýsku þjóðarinnar en samkvæmt skoðanakönnunum vilja 84 prósent hennar ekki að Grikkjum verði lagt til fé.

Líklegt er að Grikkjum þyki fyrirsögn Bild á viðtalinu í grófara lagi en þar segir; -Seljið þið eyjarnar ykkar þið gjaldþrota Grikkir -og Akropolis líka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×