Erlent

Sígaunar héldu 200 börnum í þrælkun

Óli Tynes skrifar
Einn forsprakkanna handtekinn.
Einn forsprakkanna handtekinn.

Tuttugu og sex sígaunar eru nú fyrir rétti í Rúmeníu sakaðir um að hafa rænt á annaðhundrað börnum sem voru send til Vestur-Evrópu til þess að betla og stela. Flest barnanna voru send til Bretlands.

Börnunum var rænt frá fátækum heimilum. Þau voru þjálfuð í vasaþjófnaði og hnupli. Sum þeirra voru afskræmd til þess að þeim gengi betur að betla.

Hótuðu meiðslum og refsingum

Ræningjarnir sögðu fjölskyldum barnanna að þau yrðu meidd ef fjölskyldurnar væru með uppsteit. Sömuleiðis var börnunum sagt að fjölskyldunum yrði refsað ef þau hlýddu ekki.

Þegar til Bretlands kom voru börnin undir ströngu eftirliti við betl sitt og þjófnaði. Þau þurftu að skila eftirlitsmönnum sínum öllu sem þau náðu í.

Yfirvöld í Rúmeníu komust á slóð gengisins þegar stór einbýlishús byrjuðu að rísa í hverfum sígauna. Könnun leiddi í ljós að verið var að reisa þau fyrir fólk sem hafði engar sýnilegar tekjur.

Börn skotvopn og peningar

Þegar frekari rannsókn bæði í Rúmeníu og Bretlandi leiddi í ljós umfang starfseminnar var gripið til sameiginlegra aðgerða. Það var í apríl á síðsta ári.

Yfir 300 lögregluþjónar gerðu húsleitir samtímis í löndunum tveimur. Furðu lostnir lögregluþjónar fundu þá 181 barn sem hafði verið haldið í þrælkun.

Börnin voru á aldrinum nokkurra mánaða til 17 ára. Kornabörnin voru sett í fang betlaranna til þess að auka tekjur þeirra.

Einnig fannst heilmikið af skotvopnum, hríðskotarifflar og sprengjuvörpur. Þá lagði lögreglan hald á hundruð þúsunda sterlingspunda í reiðufé, skartgripi, bíla og húseignir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×