Erlent

Komast ekki í útför pólska forsetans

Frá Kraká fyrr í dag en þar fer athöfnin fram. Mynd/AP
Frá Kraká fyrr í dag en þar fer athöfnin fram. Mynd/AP
Þúsundir manna verða við útför pólska forsetans Lech Kaczynski í Kraká í Póllandi í dag. Fjölmargir þjóðarleiðtogar komast ekki í útförina þar sem flugsamgöngur liggja niðri að mestum hluta vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Forsetinn Lech Kaczynski lést ásamt konu sinni og rúmlega 90 manns í flugslysi á leið sinni til Rússlands fyrir átta dögum. Athöfnin fer fram í kirkju heilagrar Maríu í Kraká og svo verða forsetahjónin jörðuð í kirkjugarði þar sem aðrir þjóðarleiðtogar landsins hvíla. En eldgosið í Eyjafjallajökli setur strik í reikninginn. Því fjölmargir þjóðarleiðtogar komast ekki í útförina þar sem nær allar flugsamgöngur liggja niðri.

Þeir sem ekki komast eru meðal annars Barack Obama Bandaríkjaforseti, Nicolas Sarkozy forseti Frakklands, Angela Merkel Kanslari Þýskalands og fjölmargir aðrir frá Norðurlöndunum og víðar. Eingöngu þjóðarleiðtogar í nágrannaríkjum Póllands komast í útförina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×