Erlent

Campbell sleppur við kæru

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Campbell er þekkt fyrir skapofsa. Mynd/ AFP.
Campbell er þekkt fyrir skapofsa. Mynd/ AFP.
Lögreglan í New York segir að bílstjóri ofurfyrirsætunnar Naomi Campbell ætli ekki að kæra hana þrátt fyrir að hafa sakað hana um að lemja sig.

Campbell er sögð hafa slegið bílstjóra sinn í hnakkann þannig að hann rak höfuðið í stýrið á bílnum þegar þau voru í ökuferð um New York.

Ökumaðurinn, sem er einungis 27 ára gamall, sagðist hafa sótt Campbell á hótel á Manhattan og ætlað að skutla henni í upptökuver í Queens hverfinu. Hann hafi hins vegar þurft að leggja út í kant eftir að hún sló hann í höfuðið.

Campbell er nokkuð þekkt fyrir skapofsa sinn. Árið 2000 játaði hún að hafa hent síma í höfuð aðstoðarkonu sinnar. Í hitteðfyrra var hún svo dæmd í 200 klukkustunda þegnskylduvinnu eftir að hafa játað að hafa ráðist á tvo lögreglumenn um borð í flugvél á Heathrow flugvelli í Lundúnum. Að auki hafa nokkrir aðrir aðstoðarmenn og þjónustufólk úr starfsliði Campbells kært hana vegna skapofsakasta hennar.

Vegna nýjustu árásarinnar á bílstjórinn mun Campbell sleppa frá lögreglunni með skammir fyrir áreitni í hans garð, en hún mun ekki hljóta neina refsingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×