Skoðun

Bláfjöllin heilla

Heiður Hjaltadóttir skrifar

Breiðablik er eitt þeirra íþróttafélaga á höfuðborgarsvæðinu sem heldur úti öflugri skíðadeild. Hér er skorað á stjórnendur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að taka höndum saman og klára þá undirbúningsvinnu sem er ólokið sem allra allra fyrst svo hægt sé að hefja snjóframleiðslu í Bláfjöllum næsta vetur og höfuðborgarbúar geti stundað íþrótt sína áhyggjulausir líkt og íbúar fyrir norðan og austan.

Ef horft er til reksturs Bláfjalla, þ.e. tekna og gjalda, og vísa ég þá á heimasíðu Reykjavíkurborgar, þá kemur fram í fjárhagsáætlun borgarinnar að tekjurnar sem fást fyrir sölu aðgangsmiða, skíða- og brettaleigu og svo veitingar, duga vel fyrir launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði. Það var reyndar ekki hagnaður af rekstrinum veturna 2008 og 2009 en það skýrist af afskriftunum sem gerðar eru ár hvert á mannvirkjunum sem í fjöllunum eru. Ef hins vegar hægt er að tryggja örugga opnun á 100 dögum eða fleirum ár hvert, er það alveg ljóst að ásóknin í Bláfjöll mun aukast til muna. Bæði mun iðkendum skíðadeildanna fjölga og einnig ferðamönnum og áhugafólki um skíða- og brettaíþróttina sem myndi leggja leið sína í Bláfjöll.

Svo það verði er nauðsynlegt að koma á snjóframleiðslu svo við lendum ekki aftur í því að fá aðeins fimm opnunardaga eins og raunin varð á í fyrra vegna snjóleysis. Þessa fimm daga heimsóttu þó að jafnaði 2.000 manns Bláfjöll dag hvern. Aðsóknin um nýliðna helgi sýnir líka að íbúar höfuðborgarsvæðisins láta ekki neikvæða umræðu um skíðasvæðin hafa á áhrif á sig. Rúmlega 4.000 manns á sunnudag sýnir best hvað áhuginn er mikill. Hver er aðsóknin í önnur íþróttamannvirki höfuðborgarsvæðisins dag hvern af almenningi?

Því skal einnig haldið til haga að skíðaíþróttin er það sport sem er hvað vinsælast að stunda af heilu fjölskyldunum og eru engar aðrar íþróttir á Íslandi þar sem fólk mætir að morgni með nestið sitt og eyðir deginum saman í fjöllunum í góðri útivist og hreyfingu. Þetta er ein besta forvörnin sem hægt er að hugsa sér fyrir börnin okkar og er sagt að besta forvörnin sé sú þegar fjölskyldan ver tíma sínum saman. Hvar er betra að verja honum en í Bláfjöllum?

Rekstur Bláfjalla mun vel geta staðið undir sér í framtíðinni og áhrifaríkasta leiðin til þess er að koma á fót snjóframleiðslu á svæðinu sem allra fyrst.






Skoðun

Sjá meira


×