Erlent

Olían komin að landi

Frá Louisiana í Bandaríkjunum. Þar er reynt að koma í veg fyrir að olían berist að landi en strandgæslan telur að flekkurinn hafi komið að ströndum Bandaríkjanna í nótt. Mynd/AP
Frá Louisiana í Bandaríkjunum. Þar er reynt að koma í veg fyrir að olían berist að landi en strandgæslan telur að flekkurinn hafi komið að ströndum Bandaríkjanna í nótt. Mynd/AP
Bandaríska strandgæslan telur að olíuflekkurinn úr borholunni á Mexíkóflóa hafi borist að ströndum Bandaríkjanna í nótt. Það hefur ekki fengist staðfest.

Olían byrjaði að gusast upp af hafsbotni eftir að olíuborpallurinn sprakk í loft upp og sökk fyrir rúmri viku. Ellefu menn biðu bana.

Talið er að um 500 til 700 þúsund lítrar af olíu komi upp af hafsbotni á dag. Holan er á rúmlega eins og hálfs kílómetra dýpi og telja menn að það geti tekið nokkra mánuði að skrúfa fyrir lekann. Verið er að reyna að dæla olíu af yfirborðinu um borð í pramma og einnig eru gerðar tilraunir með að brenna olíuna.

Mörg mikilvæg náttúrulífssvæði eru við strendur Louisiana og í árósum Mississippi árinnar og óttast menn að stórkostlegt umhverfisslys sé í uppsiglingu. Bobby Jindal, ríkisstjóri Louisiana, hefur lýst yfir neyðarástandi vegna lekans. Hann segir að friðuð svæði séu í hættu og hefur óskað eftir því að 6000 liðsmenn þjóðvarðliðsins verði sendir á vettvang. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að allir verði að leggjast á eitt og koma í veg fyrir meiriháttar umhverfisslys.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×