Skoðun

Lærdómstregða valdhafanna

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir skrifar
Þegar bankakerfið hrundi varð flestum ljóst að það hrundi fyrst og fremst vegna spillingar stjórnmálamanna, vanhæfni embættismanna og glæpastarfsemi í fjármálageiranum. Í kjölfarið fylgdi ringulreið, andúð almennings á valdhöfum og krafa um ábyrgð og lýðræði. Veik von vaknaði í brjósti margra að efnahagshamfarirnar myndu leiða af sér lærdóm. Að valdamenn færu kannski að tileinka sér hvatir eins og umhyggju, ábyrgðartilfinningu, framtíðarsýn og sannleiksást.

Þegar tvö ár eru liðin frá hruni sést lítið af þessum eiginleikum meðal ráðamanna. Mútaðir stjórnendur ráða enn ríkjum í lífeyrissjóðum, innherjasvikarar og þjófsnautar hafa ekki sagt af sér þingmennsku. Óæðri endar margra þingmanna og ráðherra eru sigggrónir eftir langa og viðvarandi setu í þingsætum og ráðherrastólum. Þeir eru ekki tilbúnir að sleppa takinu þrátt fyrir að þeir hafi fyrir löngu misst tengsl við tilgang þingmennsku, rökhugsun og þróað með sér ofstækisfulla trú á lögmæti þess að viðhalda sjálfum sér á valdastólum. Málpípur þeirra styðja þá við ofbeldisverkin og þöggun á röddum sem krefjast skynsemi, virðingar fyrir mannlegri reisn og réttlátra úrlausna á vandamálum samtímans.

Hver króna sem notuð er til þess að greiða fyrir hvort sem er nauðþurftir eða innfluttan lúxus er að hluta til tekin frá afkomendum okkar. Börnin sem eru að fæðast á Landspítalanum í dag fá í vöggugjöf erlendar skuldir sem núverandi valdhöfum þykir við hæfi að þau borgi til þess að halda uppi ásýnd velmegunar á Íslandi samtímans. Valdhöfum þykir við hæfi að krefjast þess að færa ábyrgð af ofurskuld Björgólfs Thors á axlir afkomenda og bera því við að það sé til þess að unnt sé að taka meiri erlend lán. Erlend lán sem komandi kynslóðum er ætlað að greiða.

Fjórðungur skatttekna ríkissjóðs er nú þegar notaður til þess að standa undir vaxtakostnaði af erlendum lánum. Þessir fjármunir eru teknir úr velferðarkerfinu. Fatlaðir, börn og sjúkir greiða þennan reikning. Það er þó ekki komið að eiginlegum skuldadögum. Hvernig verður staðan þegar standa þarf undir afborgunum af þessum lánum? Þrátt fyrir að 700 milljarðar liggi nú í gjaldeyrisvarasjóði og að sökum samdráttar bankageirans sé lítil þörf fyrir risavaxinn gjaldeyrisvarasjóð þráast stjórnmálamenn við að gera komandi kynslóðir að skuldaþrælum. Hvers vegna? Jú, það þarf að halda uppi ásýnd velmegunar í samtímanum á Íslandi. Ekki er hreyft við því hvað þessi stefna boðar fyrir framtíð þjóðarinnar. Árátta ríkisvaldsins til skuldsetningar komandi kynslóða minnir helst á villtrú en ber einnig vott um gegndarlaust ábyrgðarleysi gagnvart framtíð Íslands. Valdhafarnir leita til lausna fortíðar sem setti þjóðarbúið á hausinn vegna þess að þeir hafa ekkert lært.



Skoðun

Sjá meira


×