Erlent

Talibanar „vernda“ bandaríska flutningabíla

Óli Tynes skrifar
Flutningabílalest í Afganistan: Undir vernd talibana.
Flutningabílalest í Afganistan: Undir vernd talibana.

Það eru um 200 bandarískar herstöðvar í Afganistan og því þörf fyrir gríðarlega birgðaflutninga.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur leigt átta einkafyrirtæki til þess að sjá um 70 prósent af þessum flutningum. Þau flytja mat, eldsneyti, skotfæri og aðrar nauðsynjar til herstöðvana.

Hættulegir flutningar

Nefnd sem rannsakaði samninga varnarmálaráðuneytisins við einkafyrirtæki um verkefni í Írak og Afganistan hefur sent frá sér skýrslu þar sem segir að í hverjum mánuði séu skráðar 6000 ferðir flutningabíla í Afganistan.

Þetta eru hættulegir flutningar og NATO hefur hvergi nærri nógu marga hermenn í landinu til þess að veita þeim vernd.

Flutningafyrirtækin hafa því gripið til þess ráðs að greiða talibönum mútur fyrir að láta flutningabílana í friði.

Þekkt fyrirbæri í Bandaríkjunum

Það hefur verið reiknað út að þetta kosti um einn milljarð króna á mánuði. Kostnaður sem endar auðvitað inni á borði varnarmálaráðuneytisins.

Talibanar nota svo þessa peninga til þess að fjármagna hernað sinn gegn hernámsliðinu.

Þetta er fyrirkomulag sem er ekki óþekkt í Bandaríkjunum. Þar er raunar algengt að glæpamenn krefji eigendur verslana og veitingastaða um svokallaða verndarpeninga fyrir að láta þá í friði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×