Erlent

Almannavarnir Noregs reiknuðu ekki með eldgosi

Óli Tynes skrifar
Á leið til Noregs.
Á leið til Noregs. Mynd/ Gunnar V. Andrésson

Almannavarnir í Noregi segja að þar hafi ekki verið tekið með í reikninginn að eldgos á Íslandi gæti lamað flugsamgöngur í Evrópu.

Þetta verði nú tekið til endurskoðunar og neyðaráætlun útbúin. Per K. Brekke deildarstjóri hjá Almannavörnum Noregs segir í samtali við Aftenposten að þeir verði að skoða þetta mál af auðmýkt.

Þeir hafi ekki verið nógu vel á verði því þeir hefðu ekki ímyndað sér að afleiðingar eldgoss gætu verið svona umfangsmiklar.

Hryðjuverk, ferjuslys og flóðbylgjur

Á válista Almannavarna er meðal annars að finna viðbrögð við hryðjuverkaárásum, stórum ferjuslysum í norskri landhelgi og möguleikanum á flóðbylgju ef fjallið Åkernes í Möre og Romsdal hrynji út í sjó.

Eldfjöll á Íslandi eru hinsvegar ekki á listanum. Brekke segir að í landi sem sé jafn langt og Noregur sé flug gríðarlega mikill þáttur í almennum samgöngum.

Hann bendir á að þótt truflanir hafi orðið á samgöngum hafi samstarfið milli almannavarna, járnbrautanna og rútufyrirtækja gengið mjög vel, enda séu til viðbragðsáætlanir þar um, þótt ekki hafi verið reiknað með eldgosi.

Nú muni menn hinsvegar setjast niður og skoða eldgosin nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×