Viðskipti innlent

Vodafone hættir að dreifa erótísku efni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Klám á skjá Vodafone á Íslandi segist ekki lengur selja erótískt efni. Slíkt efni hefur líka verið til sölu í Sjónvarpi Símans í gegnum áskriftapakka og aðgang á vídeóleigunni SkjáBíói.
Klám á skjá Vodafone á Íslandi segist ekki lengur selja erótískt efni. Slíkt efni hefur líka verið til sölu í Sjónvarpi Símans í gegnum áskriftapakka og aðgang á vídeóleigunni SkjáBíói. Fréttablaðið/Valli
Vodafone hefur ákveðið að hætta dreifingu og sölu á öllu erótísku efni í gegnum vef­gátt fyrir farsíma. Sömuleiðis verður hætt að bjóða svokallað erótískt efni á Leigunni, sem er stafræn leiga á myndefni fyrir sjónvarp.

Fyrirtækið greindi frá ákvörðun sinni í fréttatilkynningu í gær, en þá var dreifingu efnisins jafnframt hætt.

„Nokkur umræða hefur spunnist um dreifingu á djörfu efni að undanförnu og hafa spjótin beinst að Vodafone fyrir að dreifa þannig efni,“ segir í tilkynningunni og er frá því greint að nokkrir viðskiptavinir hafi haft samband við fyrirtækið og látið í ljós vanþóknun sína á að fyrirtækið dreifi slíku efni.

„Vodafone hefur meðtekið þessi skilaboð frá viðskiptavinum og samfélaginu og tekið þá ákvörðun að hætta allri sölu á slíku efni,“ segir þar jafnframt. Úr farsímum Vodafone er aðgangur að fréttum, veðri og íþróttum í gegnum vef­gátt Vodafone sem nefnist Vodafone live, en þar hefur þangað til í gær einnig verið hægt að kaupa erótískt myndefni frá efnisveitum utan úr heimi. Þá er í gagnvirku sjónvarpi Vodafone starfrækt Leigan (svokölluð VOD þjónusta, eða video on demand).

„Þar hefur verið að finna erótískt efni eftir pöntun. Með þessari ákvörðun Vodafone verður slíkt efni ekki lengur í boði á vefgátt fyrirtækisins eða í stafrænni leigu í sjónvarpinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×