Skoðun

Aularnir halda áfram í keiluskorun á Alþingi

Friðrik Indriðason skrifar

Vissir alþingismenn ætla að láta mótmælin fyrir utan Alþingi í vikunni sem vind um eyrun þjóta. Hlusta sennilega ekki á annað en eigið lýðskrum í ræðustól. Reyna hvað þeir geta að „skora keilur" í hugum dyggra flokksmanna.

Skýrasta dæmið er undarleg fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar á Alþingi í dag til fjármálaráðherra um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að svara áminningarbréfi ESA (Eftirlitsstofnunnar EFTA) um Icesave sem barst í maí s.l.

Á mbl.is stendur síðan orðrétt: „Sigurður Kári sagði að þetta væri tíðindi ef ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja Icesave undir dóm EFTA-dómstólsins og kvaðst hann fagna þeirri stefnubreytingu."

Annað hvort er þessi þingmaður einfaldlega með greindarvísitölu á við stofuhita eða hann fylgist yfir höfuð ekkert með fréttum í fjölmiðlum. Það eru ekki íslensk stjórnvöld sem eru að vísa þessu máli til EFTA dómstólsins. Þvert á móti er það ESA sem ætlar að gera slíkt og ríkisstjórnin reynir að verjast þeim áformum.

Steingrímur J. Sigfússon sagði að stjórnvöld hafi enga ákvörðun tekið um að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.

Því sem Sigurður Kári telur ástæðu til að fagna, og þá væntanlega skora einhver stig í ræðustóli í dag, er dauðans alvara. Að Icesave málið fari fyrir EFTA dómstólinn að kröfu ESA er fyrir Ísland það sama og pókerspilari færi „all in" með lélega hendi. Sigurður Kári ætti að kynna sér hve hátt hlufall mála sem ESA hefur sótt fyrir þessum dómstóli hafa tapast.

Ef EFTA dómstólinn dæmir okkur í óhag gæti sá dómur hljóðað upp á að íslenska ríkinu bæri skylda til að greiða Icesave skuldina upp í topp en ekki bara ESB lágmarkið upp á rúmar 20 þúsund evrur á reikning. Það er að segja allt upp að og umfram hið sjálfskipaða hámark Breta upp á 50.000 pund á reiking og Hollendinga upp á 100.000 evrur á reikning.

Ég á ekki von á því að Sigurður Kári og aðrir honum líkir á Alþingi myndu fagna þeirri niðurstöðu í ræðustól.










Skoðun

Sjá meira


×