Handbolti

Hrafnhildur: Íslendingar dagsins voru áhorfendurnir í stúkunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Árósum skrifar
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir. Mynd/Ole Nielsen
„Við erum að sjálfsögðu afar ósáttar við okkur," sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir eftir tapleikinn gegn Rússum á EM í handbolta í kvöld. Ísland er nú úr leik á mótinu.

„Við vorum að fara illa með færin okkar og meðal annars ég sjálf - mjög illa. Þetta var ótrúlega fúlt og Íslendingar dagsins er fólkið sem sat upp í stúku. Við fengum frábæran stuðning og það var ótrúlegt að við gátum ekki gert betur."

„Mér finnst að við höfum barist eins og ljón í öllum okkar leikjum og var til dæmis vörnin góð í dag þegar við náðum að stilla upp. En Rússar fengu of mikið af auðveldum mörkum og við vorum ekki nógu skipulagðar þegar við vorum að hlaupa til baka."

„Við erum allar alveg hundsvekktar. Við ætluðum allar að gera mun betur. Það er alveg klárt."

Hún segir að það hafi verið frábær stemning í liðinu þegar að staðan var 7-7 í fyrri hálfleik.

„Við ætluðum alltaf að ná öðrum svona kafla og við vorum alltaf staðráðnar í því að gera alltaf betur. En þetta var bara ekki nógu gott."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×